Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Mikill sigdalur hefur myndast

03.09.2014 - 12:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Þrýstingur í kvikuganginum norðan við Dyngjujökul er að aukast og breiður og djúpur sigdalur hefur myndast undir jöklinum. Hraun hljóp fram um hálfan kílómetra við gosstöðvarnar í nótt. Það er um 7 kílómetra frá gígunum og er á fullri ferð segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur.

Í nótt varð skjálfti upp á 5,5 í öskju Bárðarbungu.  Kristín Jónsdóttir jarðskjálftafræðingur hjá Veðurstofunni segir að sigdalurinn sé eins kílómetra breiður og hann sé það djúpur að hann komi fram í gegnum jökulinn, þannig að hann hafi verið að brjóta jökulsporðinn. Það er jörðin sjálf sem er að síga ekki jökullinn.  „Þetta er gliðnunarhrina sem við höfum horft upp á frá 16.ágúst, plöturnar að fara til sitthvorrar hliðar. Svo sjáum við sigdal –  Þingvellir eru dæmi um sigdal, náttúrulega mjög stór sigdalur."

Nýtt líkan bendi til þess að meiri kvika sé að koma inn í kerfið. Kvikan sem kemur inn í ganginn er meiri en kvikan sem kemur upp úr ganginum. Þrýstingur í ganginum sé aukast. Kvikan sem kemur úr gosinu er því ekki í fullkomnu jafnvægi og því er spurning hvort hún geti komið upp á öðrum stöðum. 

„Þetta þýðir að sprungan gæti lengst til suðurs og þá inn undir jökul. Ef það gerist kemur kvika upp undir jökli og þá er flóðahætta, öskumyndun og sprengi hætta."

Svavar Pálsson sýslumaður á Húsavík segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um breytt viðbúnaðarstig vegna þróunar mála við Dyngjujökul.  Fundað er í samhæfingarstöð almannavarna á Húsavík þar sem menn ráða ráðum sínum um framhaldið. Áætlanir um rýmingu í Öxarfirði og Kelduhverfi liggja fyrir ef það gýs undir jökli með tilheyrandi flóði í Jökulsá á Fjöllum. Enn er viðbúnaðarstig óbreytt. Jarðvísindastofnun og veðurstofan vinna að nýju hættumati vegna þeirra vísindamanna sem eru að störfum á svæðinu.