
Mikill munur eftir kjördæmum
Andri sækir mest fylgi sitt á höfuðborgarsvæðið. Auk stuðningsins í Reykjavík norður á hann miklu fylgi að fagna í Reykjavík suður þar sem hann fékk 18,1 prósent þeirra atkvæða sem talin höfðu verið rétt fyrir klukkan tvö. Hann hlaut 12,2 prósent í suðvesturkjördæmi en innan við tíu prósent í öllum landsbyggðarkjördæmunum, mest 9,4 prósent í Norðausturkjördæmi.
Davíð Oddsson á nokkuð jöfnu fylgi að fagna. Hann var með 12,6 til 14,2 prósent í fimm af sex kjördæmum þegar 87 þúsund atkvæði höfðu verið talin. Undantekningin var Norðausturkjördæmi þar sem hann hefur fengið 9,8 prósent atkvæða.
Halla Tómasdóttir sækir meira fylgi til landsbyggðarkjördæmanna heldur en fjölmennu kjördæmanna á höfuðborgarsvæðinu. Hún fékk 33,2 til 35,0 prósent atkvæða á landsbyggðinni, 30,2 prósent í suðvesturkjördæmi en minnst var fylgið í Reykjavík. Það var 25,0 prósent í Reykjavík suður en 23,6 prósent í Reykjavík norður.
Mesta fylgi sitt það sem af er kvöldi hefur Guðni Th. Jóhannesson fengið í Norðausturkjördæmi, 44,1 prósent. Minnst var fylgið í Reykjavík norður, 34,6 prósent. Fylgið í öllum hinum kjördæmunum var á bilinu 38,0 til 40,6 prósent.
Guðni alls staðar á toppnum
Guðni hefur fengið mest fylgi í öllum sex kjördæmunum. Halla er önnur í öllum kjördæmum nema Reykjavík norður þar sem Andri Snær Magnason er annar. Þar munar þó ekki miklu á þeim, Andri er með 23,9 prósent en Halla 23,6 prósent. Davíð var þriðji í fjórum kjördæmum, öllum nema Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, þar sem hann var fjórði. Andri Snær var fjórði í landsbyggðarkjördæmunum þremur og suðvesturkjördæmi.
Sturla Jónsson hlut þrjú til fjögur prósent atkvæða í fjórum kjördæmum og litlu minna í því fimmta. Hann fékk hins vegar besta niðurstöðu í þessum fyrstu tölum í Suðurkjördæmi þar sem hann var með 6,1 prósent þegar fyrstu, og enn sem komið er einu, tölur voru birtar.