Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Mikill meirihluti vill ekki spilavíti

31.10.2014 - 14:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Sjötíu prósent landsmanna er andvígur því að leyfa rekstur spilavíta hér á landi. 90 prósent þeirra sem styðja VG eru á móti rekstri spílavíta en mestur er stuðningurinn hjá ungum körlum og stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins og Pírata.

Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR. 

Þetta eru svipaðar niðurstöður og þegar viðhorf landsmanna til spilavítisreksturs var kannað í júlí 2011. Þá voru 69 prósent andsnúin því að leyfa rekstur spilavíta. MMR kannaði fyrst afstöðu landsmanna í febrúar 2010 - þá voru tæp 64 prósent andsnúin rekstri spilavíta.

Hörðustu andstæðingar spilavítisreksturs eru stuðningsmenn Vinstrihreyfingarinnar grænt framboð. 90 prósent stuðningsmanna flokksins er andsnúinn rekstri sem þessum.  Sjálfstæðismenn og Píratar eru jákvæðastir í garð þessa rekstur - tæp 45 prósent stuðningsmanna Pírata vilja leyfa þennan rekstur, tæp 46 prósent Sjálfstæðismanna.

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, ásamt tólf þingmönnum úr þremur flokkum, lagði í september fram frumvarp öðru sinni þar sem lagt er til að starfsemi spilavíta verði gerð leyfileg. Málið var einnig lagt fram á síðasta þingi en fékk þá ekki efnislega meðferð. Framsóknarmenn eru ekkert of hrifnir af þessari hugmynd Willums - 60 prósent þeirra sem styðja flokkinn vilja ekki spilavíti hér á landi, að því er fram kemur í könnun MMR.

Í frumvarpi þingmannsins er meðal annars gert ráð fyrir að aðeins eitt spilavíti fengi leyfi til að byrja með en flutningsmennirnir telja að lögleiðing fjárhættuspila yrði líkleg til að styðja og efla ferðamannaþjónustu.

Íslendingar eru því íhaldssamir hvað svona breytingar varðar því skoðanakönnun Fréttablaðsins fyrir skömmu leiddi það í ljós að tveir af hverjum þremur væru á móti sölu áfengis í matvöruverslunum. Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins,  hefur lagt fram frumvarp þess efnis að sala áfengis verði gefin frjáls.