Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mikill kostnaður brotaþola heimilisofbeldis

Hanna Kristín Skaftadóttir. - Mynd: Viktoría Hermannsdóttir  / Viktoría Hermannsdóttir
Hanna Kristín Skaftadóttir skrifaði opið bréf til Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra á Facebook þar sem hún leggur til að brotaþolar í kynferðis- og heimilisofbeldismálum fái gjafsókn þegar þörf er á að sækja einkamál.

„Við mælum með að stutt verði við konur að sækja réttlæti sitt og lágmarkaður tíminn sem þær þurfa að bíða eftir að mál þeirra verði tekið fyrir. Því fyrr sem við tökum á þessum málum og setjum þau í ferli því minni kostnaður verður það fyrir hið opinbera og heildrænt fyrir samfélagið þar sem minni tími þarf að fara í sokkinn kostnað sársauka og vonlausrar biðar,“ segir Hanna Kristín í bréfinu til dómsmálaráðherra. 

Hún lagði fram kæru gegn fyrrverandi sambýlismanni sínum í apríl vegna heimilisofbeldis og segir að lítið hafi þokast í málinu. „Maðurinn hélt áfram að ganga á mig og ég tilkynnti alltaf til lögreglunnar. Ég fékk hvorki frið á nóttu né degi,“ segir Hanna Kristín. Rætt var við hana í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag. Nálgunarbann sem hún fékk á sambýlismanninn fyrrverandi rennur út í febrúar og sér hún ekki fram á að málaferlunum verði lokið þá. „Það er galið að nálgunarbann sé ekki áætlað fram yfir réttarhöldin gegn ofbeldismanninum,“ segir hún.

Hanna Kristín segir lögfræðikostnað brotaþola mjög háan og því sé brýnt í vissum tilvikum að gjafsókn sé í boði. Hún bendir á tilfelli konu sem var að gefa skýrslu hjá lögreglu um ofbeldið sem hún varð fyrir en það gleymdist að kveikja á upptökutækinu. Þá sé ótalinn kostnaður við tíma  hjá læknum, tannlæknum og við sálfræðiaðstoð. „Þetta er ansi dýrt fyrir brotaþola sem þarf sjálfur að standa í þessum kostnaði.“ Sjálf greiddi Hanna Kristín 87.500 krónur fyrir vottorð áfallateymis á Landspítala. „Ég get staðið undir þessum kostnaði en hvað með allar hinar konurnar sem eru í láglaunastörfum. Eiga þær að geta reitt þessa fjármuni fram?“ Hún segir að fyrrum sambýlismaður hennar hafi hótað henni ýmsu, meðal annars að „drekkja henni í lögfræðikostnaði“.

Engin viðbrögð hafa borist frá yfirvöldum enn. Hanna segir það tilfinningu sína að fólk í stjórnmálum sé hikandi við að taka afstöðu í málum sem þessum. „Mér finnst að opinberar persónur og stjórnmálamenn eigi að taka afstöðu. Afstöðuleysi getur verið túlkað af brotaþolum beinlínis sem svik,“ segir Hanna sem kveðst hafa fengið mikið af skilaboðum frá fólki sem ekki vill láta stuðninginn koma fram opinberlega. 

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. 

Eftirfarandi er bréf Hönnu Kristínar til dómsmálaráðherra.