Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Mikill áhugi á nýju framboði

21.09.2011 - 12:55
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður, segir áhuga á frjálslyndu framboði á landsvísu og hefur rætt við fjölmarga um allt land um að taka þátt í slíku framboði.

Guðmundur upplýsti í gær að hann undirbúi nýtt frjálslynt framboð á landsvísu fyrir næstu þingkosningar ásamt, meðal annarra, aðstandendum Besta flokksins. En það eru mun fleiri sem komið hafa að þeirri vinnu, segir Guðmundur, meðal annars fulltrúar staðbundinna, óháðra framboða í fjölmörgum sveitarfélögum. Heimildir fréttastofu herma að rætt hafi verið við fulltrúa L-listans á Akureyri og Kópavogslistans.

Guðmundur segir að til hans hafi verið leitað og hann skynjað að það væri mikill áhugi hjá forsvarsmönnum slíkra framboða víða um land að koma að nýrri hreyfingu. Guðmundur segir jafnframt að rætt hafi verið við nokkra fulltrúa úr stjórnlagaráði, sem og við fólk úr háskólapólitíkinni. Allt þetta fólk eigi það sameiginlegt að hafa litla trú á þeirri pólitík sem stunduð hafi verið á landsvísu undanfarið, og nefnir Guðmundur störf Alþingis í september sem dæmi um slíka pólitík.

Guðmundur segir að með nýju framboði vilji hann efla grænar áherslur í atvinnuuppbyggingu. Hann vilji standa vörð um lýðræðisferlið og lýðræðisáherslurnar sem stjórnlagaráð hafi boðað. Hann vill ræða atvinnuuppbyggingu á all öðrum og víðtækari grunni með almannahagsmuni að sjónarmiði. Guðmundur vill klára aðildarviðræður við ESB einfaldlega vegna þess að Íslendingar verði að ljúka málinu og komast að skynsamlegri niðurstöðu.