Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mikill áhugi á forsætisráðherra erlendis

03.04.2016 - 20:54
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot af Süddeutsche Zeitun
Pútín Rússlandsforseti, Assad Sýrlandsforseti og Lionel Messi eru meðal þekktra einstaklinga í gagnapakka Mossack Fonseca, sem upplýst var um í fjölmiðlum á heimsvísu í dag. Erlendir miðlar sýna máli forsætisráðherrahjónanna mikinn áhuga.

Gagnalekinn sýnir fram á að margir milljarðar dollara eru faldir í skattaskjólum. Greint var frá gögnunum samtímis á fjölmiðlum um allan heim nú fyrir stundu. Stjórnmálamenn, glæpamenn og íþróttastjörnur eru meðal annars á listanum. 29 af 500 ríkustu mönnum heims eru á listanum, tólf þjóðarleiðtogar, þar af sex starfandi og 128 stjórnmálamenn. 

Fjallað var um málið meðal annars á breska ríkissjónvarpinu BBC, á ríkismiðlum Svíþjóðar og Danmerkur og í sérstökum fréttaskýringarþætti Aftenposten í Noregi.

Erlendir miðlar fjölluðu sérstaklega um forsætisráðherra Íslands, en hann er einn tveggja starfandi þjóðarleiðtoga Evrópu sem er á listanum. Hinn er Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, sem talinn er einn ríkasti þjóðarleiðtogi Evrópu. Gögnin sýna einnig tengsl Pútíns Rússlandsforseta við aflandsfléttu upp á tvo milljarða dollara. Önnur þekkt nöfn á listanum eru meðal annars Kvikmyndastjarnan Jackie Chan, Assad Sýrlandsforseti og stjórnarmenn FIFA.

Pútín, Messi og forsætisráðherra Íslands

Á vef Danmarks Radio segir að meðal stærstu fréttanna úr lekanum séu upplýsingar um tengsl Pútíns, fótboltastjörnunnar Lionels Messi og forsætisráðherra Íslands við aflandsfélög.  Á vef Guardian er umfjöllun um forsætisráðherra Íslands á forsíðu ásamt Pútín Rússlandsforseta. Sama gildir um franska blaðið Le Monde. Umfjöllun um forsætisráðherra er efsta frétt á vef sænska ríkisútvarpsins.

Í kvöldfréttatíma BBC var fyrsta frétt um forsætisráðherrann, einnig var fjallað ítarlega um hann í fréttatíma sænska sjónvarpsins. Viðtalið sem tekið var við Sigmund Davíð í ráðherrabústaðnum fjórum dögum áður en eiginkona hans greindi frá Wintris hf. á Facebook, hefur verið sýnt í miðlum víða um heim, meðal annars The Guardian, DR1 og Aftenposten.

Panamaskjölin hafa vakið upp hörð viðbrögð. Fjölmargir hafa tjáð sig um þau á Facebook og Twitter, bæði hér heima og erlendis, undir merkinu #panamapapers.