Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Mikil vinna að baki Íslandsbók barnanna

Mynd: Linda Ólafsdottir / Facebook

Mikil vinna að baki Íslandsbók barnanna

11.10.2016 - 16:19

Höfundar

„Hugmyndin er að reyna að færa, á 50 opnum, barninu gjöfina Ísland, á skemmtilegan hátt og fallegan án þess að þetta sé kennslubók,“ segir Margrét Tryggvadóttir sem samdi texta Íslandsbókar barnanna sem Linda Ólafsdóttir myndskreytti. „Þessi bók endurspeglar það að gefa því gaum sem við eigum og er í kringum okkur,“ segir Margrét.

Linda segist hafa lært mikið af sinni vinnu við bókina, líkt og Margrét, en báðar lögðu mikla heimilda- og rannsóknarvinnu á sig og býr um tveggja ára vinna að baki bókinni. Margrét segir bókina upphaflega hafa átt að koma út árið 2009 sem ferðabók fyrir börn en vegna hækkaðs prentkostnaðar eftir efnahagshrunið hafi verið hætt við hana. Nokkrum árum síðar hafi verkefnið verið endurvakið og bókin þá ekki lengur ferðabók heldur mun umfangsmeira verk og tímafrekara. 

Linda segist vilja hafa myndskreytingar sínar þannig að fólk sjái handbragðið þannig að þær séu lifandi. Hún teikni þær fyrst upp með blýanti, bæti síðan við vatnslitum og klári þær síðan í tölvu. Linda er með meistaragráðu í myndskreytingum og segist helst vilja skreyta barnabækur. Hún segir vissulega hafa verið erfitt að myndskreyta bókina, hún hafi t.d. þurft að teikna nokkuð nákvæmlega myndir af hinum ýmsu fuglum Íslands og viti því mun meira nú um fugla en áður. 

Margrét og Linda ræddu við Víðsjá um bókina sem ætlað er að kveikja áhuga barna og líka foreldra á Íslandi, náttúru landsins, dýra- og gróðurlífi, þjóð, tungu o.fl. Talið barst einnig að stöðunni í barnabókaútgáfu á Íslandi og segir Margrét að barnabókahöfundar beri lítið úr bítum. „Okkur vantar svo peninga í þetta allt saman. Við sem höfundar erum að fá ótrúlega lítið út úr þessu og það er ekki vegna þess að bókaútgáfur á Íslandi séu reknar af svo vondum kapítalistum, það eru bara svo fá börn,“ segir Margrét.