Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mikil velvild gagnvart flóttamönnum

24.12.2015 - 09:22
Mynd með færslu
 Mynd: Þórir Guðmundsson - Facebook
Móttaka tuga flóttafólks frá Sýrlandi er geysimikið verkefni, en margar hendur vinna létt verk. Þetta segir Þórir Guðmundsson hjá Rauða krossinum í Reykjavík.

Fjölmargir sjálfboðaliðar hafa aðstoðað Rauða krossinn við að útbúa íbúðir handa flóttamönnum frá Sýrlandi sem flytja hingað til lands í næsta mánuði. Þórir var gestur Óðins Jónssonar í Morgunvaktinni á morgni aðfangadags. 

Fjölþætt verkefni
Að sögn Þóris eru verkefni Rauða krossins í kringum jólin fjölþætt. Rauði krossinn aðstoðar sérstaklega þrjá hópa fólks á þessum tíma. Í fyrsta lagi eru það hinir jaðarsettu, útingangsfólk, fíkniefnaneytendur og fólk með geðraskanir. Annar hópur eru innflytjendur og flóttafólk, sem getur verið rótlaust í samfélaginu. „Það getur verið berskjaldað því það er í landi sem það þekkir engann,“ segir Þórir. Þriðji hópurinn eru þeir sem eru í tímabundnum erfiðleikum vegna fjárhagslegs áfalls eða veikinda. 

Gríðarlegur fjöldi sjálfboðaliða
Þórir segir að fjöldi sjálfboðaliða hjá Rauða krossinum hafi tvöfaldast eftir stofnun Facebook-hópsins Kæra Eygló. Þeir hafi verið 750 fyrir en séu nú tvöfallt fleiri. Sjálfboðaliðarnir aðstoða ekki aðeins við komu flóttafólks heldur heimsækja þeir einnig aldraða og sjúka og aðra sem þurfa á þjónustu að halda.

Margar hendur vinna létt verk
Rauði krossinn vinnur nú hörðum höndum að því að gera íbúðir fyrir þá flóttamenn sem flytjast hingað til lands í janúar, hæfar til búsetu. 

„Þetta gefur verið geysilega umfangsmikið verkefni fyrir okkur. Þeir þekkja það sem hafa flutt milli húsa hvernig það er að útbúa nýja íbúð. Við erum með tíu íbúðir sem þarf að útvega fyrir þetta fólk sem er að koma,“ segir Þórir sem segir verkefni bæði krefjandi og skemmtilegt.

Færri sjálfboðaliðar komast að en vilja,  „Það er frábær aðstaða að vera í og það er greinilega mikil velvild gagnvart þessum hópi sem er að koma.“

Búið er að fylla fjórar íbúðir af húsgögnum en fyrstu fjölskyldurnar koma í janúar. Þórir segist þakklátur þeim fjölmörgu samtökum og stofnunum sem hafa aðstoðað við komu flóttamanna hingað til lands.

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður