Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mikil svifryksmengun og lélegt skyggni

01.01.2018 - 03:03
Mynd með færslu
 Mynd: R. Thorlacius - RÚV
Skyggni á höfuðborgarsvæðinu fór niður í 700 metra um miðnæturbil og hélst óbreytt í um klukkustund, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Vindur var nær enginn og skotgleði landans með allra mesta móti þessi áramótin. Þegar þetta tvennt fer saman er ekki von á góðu, enda mældust loftgæði slæm á öllum virkum mælistöðvum á höfuðborgarsvæðinu upp úr miðnætti. Ástandið var einna verst í Kópavogi, þar sem magn svifryks í lofti mældist 90 sinnum meira en það sem heilsusamlegt má teljast.

Vindur á höfuðborgarsvæðinu fór ekki upp fyrir 0,9 m/s klukkustundum saman, sitt hvorum megin við áramótin. Á sama tíma var skotið upp gríðarlega miklu magni af flugeldum, en eins og fram kom í fréttum í gær rokseldust flugeldar af öllu tagi fyrir þessi áramót. Heilsufarsmörk svifryks eru 50 míkrógrömm á rúmmetra (µg/m3) en á fyrstu klukkustund ársins fóru þau allt upp í um 1.300 µg/m3 á mælistöðinni á Leifsgötu, 2.500 µg/m3 við Grensás og 4.500 µg/m3 á mælistöðinni við Dalsmára í Kópavogi.

Sem fyrr segir mældist skyggni á höfuðborgarsvæðinu aðeins 700 metrar. Til samanburðar, mælist skyggni á venjulegum, úrkomulausum degi yfirleitt á bilinu 40 - 50 kílómetrar og þaðan af meira.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV