Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Mikil loftmengun í Reykjavík

19.02.2014 - 22:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Mikil loftmengun hefur verið í Reykjavík og víðar um landið í dag. Svifrykið hefur farið allt að fertugfalt yfir heilsuverndarmörk í toppum, og hefur ekki verið meira frá síðustu eldgosum. Ösku er þó ekki um að kenna að þessu sinni.

Mikið hefur mætt á loftgæðamælum í rokinu á höfuðborgarsvæðinu í dag. Hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafa ekki sést jafn háar svifrykstölur um árabil.

Kristín Lóa Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá Heilbrigðiseftirlitinu segir svifrykstölurnar slaga upp í tölurnar sem sáust í öskufjúkinu 2010-2011. 
„Við erum að slaga upp í þau gildi að meðaltali yfir sólarhringinn,“ segir Kristín Lóa. 
Svifryk má ekki fara yfir 50 míkrógrömm á fermetra, þá er það komið yfir heilsuverndarmörk. Meðaltalsmengun við Grensásveg í dag var hins vegar 420 míkrógrömm, og topparnir fóru yfir 2000 míkrógrömm. Það er meiri mengun en þegar sprengingarnar ná hámarki um áramót. Heilbrigðiseftirlitið hvetur þá sem eru með viðkvæm öndunarfæri að forðast miklar umferðargötur. 

Kristín Lóa telur að orsökin sé einfaldlega rykið í umhverfi okkar. „Ég tel það bara líklegast. Það hefur náttúrulega þurft að sanda og salta mikið til að koma í veg fyrir slys á fólki, og svo er náttúrlega bara ryk í umhverfinu, vegna þess að það er búið að vera mjög þurrt.  Ef við horfum bara á grasflatir, þá eru þær mjög þurrar núna og þar er ryk að hringsóla fram og til baka. Það er mjög sterk austanátt, og samkvæmt veðurfræðingi sem ég talaði við áðan, þá er líklegt að það komi sandur af söndunum að austan. Ekki af öskufallssvæðunum, heldur bara af söndunum sjálfum,“ segir Kristín Lóa.