Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Mikil gróska í nýsköpun í sjávarútvegi

26.07.2015 - 19:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjöldi fyrirtækja í húsi Sjávarklasans hefur fjórfaldast á þremur árum. Nýsköpun tengd sjávarútvegi er í miklum blóma. Fjölmargar nýjungar eru komnar á markað eða væntanlegar.

Hús sjávarklasans tók til starfa árið 2012. Þá voru tólf fyrirtæki í öðrum enda hússins en nú eru þau að verða fimmtíu talsins og leggja undir sig alla efri hæðina. Í kringum 100 fyrirtæki tengjast neti klasans og er töluverður biðlisti eftir húsnæði.

Í fréttum gær var sagt frá því að ráðgert væri að fjárfesta í nýsköpun tengdri sjávarútvegi fyrir sjö til átta milljarða á næstu árum. Fyrirtækið Margildi hefur þróað nýja aðferð við að vinna lýsi uppsjávarfiska til manneldis sem margfaldar verðmæti þess. Annar stofnanda fyrirtækisins, Snorri Hreggviðsson, segir að umhverfið til nýsköpunar í sjávarútvegi sé að mörgu leyti gott.

„Það eru stuttar boðleiðir og frekar einfalt að ná sambandi við yfirmenn fyrirtækja eins og í sjávarútvegi og vinna svona hugmyndum brautargengi. Við höfum fengið góða aðstoð frá ýmsum í þeim geira. Síldarvinnslunni, HB Granda, Ísfélaginu í Vestmannaeyjum og Eskju. Þeir hafa staðið sig vel í að útvega okkur hráefni og upplýsingar þannig að við höfum getað unnið þetta áfram.“

Snorri segir að aðkoma háskólanna og stofnana eins og Matís sé einnig ómetanleg. Þá séu styrkir úr AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi og örðum sambærilegum sjóðum mikilvægur stökkpallur.

Dæmi um ný fyrirtæki og vörur þeirra eru Ankra sem framleiðir fæðubót sem inniheldur ensím og collagen úr fiskroði. Key Natura vinnur andoxunarefni úr þörungum, 4fish hefur hannað sporðskurðarvél sem bætir nýtingu við flökun og Bóas Kristjánsson vinnur að fatalínu fyrir karlmenn úr roði.