Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mikil fjölgun kynferðisbrota-Fréttaskýring

17.11.2013 - 18:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Ríflega 200 fleiri kynferðisbrotamál hafa verið kærð til lögreglu það sem af er þessu ári en allt árið í fyrra. Kærum hefur fjölgað í öllum kynferðisbrotaflokkum og þeim hefur verið að fjölga ár frá ári undanfarin fimm ár.

Mikil fjölgun varð á kærðum kynferðisbrotum til lögreglu strax í janúar eftir umfjöllun Kastljós um kynferðisbrot. Sú þróun hefur haldið áfram allt árið og í lok september höfðu 575 kynferðisbrot verið kærð til lögreglu um allt land. Það eru ríflega 200 fleiri kærur en allt árið í fyrra. 
Kærðum kynferðisbrotum hefur að vísu fjölgað ár frá ári síðustu fimm ár.

Kynferðisbrotakærum fjölgað jafnt og þétt

Samkvæmt tölum sem ríkislögreglustjóri tók saman fyrir fréttastofu voru kærurnar 318 árið 2009, 323 árið 2010, 365 árið 2011, 367 í fyrra og eins og fyrr segir hafa 575 kynferðisbrot verið kærð til lögreglu á þessu ári. 

Og kærum hefur fjölgað í nánast öllum kynferðisbrotaflokkum. Mest hefur fjölgunin orðið í vændismálum en ný lög sem bönnuðu milligöngu um vændi voru samþykkt í apríl 2009. Nauðgunarkærum og kærum í kynferðisbrotum gegn börnum hefur einnig fjölgað verulega.

Alvarlegum kynferðisbrotakærum fjölgað mikið

Nauðgunarkærum hefur fjölgað jafnt og þétt. Þær voru tæplega hundrað á ári fyrir fimm árum en það sem af er þessu ári hafa 148 nauðganir verið kærðar til lögreglu.

Meiri sveifla er í kærðum kynferðisbrotum gegn börnum. Árið 2009 voru 139 slík mál kærð til lögreglu, heldur færri kærur bárust næstu tvö ár en síðan hefur kærunum fjölgað. Í ár hafa lögreglunni borist 164 kærur í þessum brotaflokki.

Ríkislögreglustjóraembættið tók einnig saman fyrir RÚV aldur brotanna og hve mörg þeirra hafa verið send áfram til ákæruvalds.

Fimmtíu kærur í ár vegna brota sem eru eldri en 20 ára

Athyglisvert er að skoða aldursamsetningu brotanna. Í fyrra áttu 235 kynferðisbrotakærur af þeim 367 sem bárust lögreglu sér stað sama það ár. 59 mál voru frá árinu 2011, 28 frá árinu 2010 og 8 brot frá árinu 2009. Afgangurinn af kærunum var vegna atburða eða glæpa sem gerðust áður og það elsta frá árinu 1985. 13 mál sem kærð voru í fyrra áttu sér stað fyrir 20 árum eða meira. 

Á tímabilinu 1. janúar til 30. september á þessu áru eru 346 kærð kynferðisbrot vegna mála sem áttu sér stað á árinu. 99 mál vegna brota frá í fyrra, 24 kærur bárust vegna brota sem gerðust árið 2011 og 10 vegna mála frá árinu 2010. Athygli vekur að mun fleiri eldri mál voru kærð til lögreglu á þessu ári en fyrra. Þannig er elsta kæran vegna brota sem áttu sér stað árið 1965 og allt í allt hafa 50 kærur borist lögreglu vegna mála sem gerðust fyrir 20 árum eða meira.

Meirihluti ratar til ákæruvaldsins

Fréttastofa spurðist einnig fyrir um ferla kynferðisbrota sem lögreglan hefur lokið á árinu. Í svari Ríkislögreglustjóra kemur fram að mikill meirihluti kynferðisbrotamála fara áfram til ákæruvaldsins. Langflest vændismál enda hjá ákæruvaldinu eða 98,7% þeirra. 92,7% kynferðisbrota gegn börnum eru send til ákæruvaldins og 89,9% nauðgana. Rannsókn á kynferðislegri áreitni er oftast hætt hjá lögreglu eða í 34,6% tilfella. - [email protected]