Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Mikil endurnýjun ekki þinginu til góða

28.08.2016 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það er ekki Alþingi til góða og er hluti af vanda þess hversu miklar breytingar hafi orðið á skipan þingmanna í síðustu þingkosningunum. Þetta segir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis. Hann vonar þó að átakastjórnmál síðustu ára séu að baki. Nítján þingmenn hafa gefið það út að þeir ætli ekki að gefa kost á sér í þingkosningunum í haust.

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, varð í gær nítjándi þingmaðurinn sem ekki verður í framboði í þingkosningunum í haust. Þetta varð ljóst eftir að hann tapaði fyrir Karli Garðarsyni um oddvitasætið í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Einar K. Guðfinnsson, forseti ALþingis, segir þetta mikið umhugsunarefni og ekki síður að ekki bara núna heldur í síðustu þrennum Alþingiskosningum hafi orðið miklar breytringar á skipan þingsins - þriðjungur þingmanna hafi verið nýr 2007, tæplega fjörutíu prósent þingmanna í kosningunum tveimur árum seinna og sama hlutfall  í síðustu þingkosningum. „Ég er ekki að hnýta í það einstaklinga sem hlutu kjör eftir þessar kosningar þegar ég segi að ég tel þetta ekki þinginu til góða og er hluti af vandanum sem þingið hefur glímt við - þessar gríðarlega miklu breytingar sem orðið hafa á skipan þingmanna.“

Þetta sé kannski gagnstætt því sem heyrist í síbyljunni þar sem sé öskrað og kallað eftir því að öllu þinginu sé skipt út. „Ég held að Alþingi, kannski umfram flestar ef ekki allar aðrar stofnanir samfélagsins, þurfi á ákveðnum stöðugleika að halda í þessu tilliti.“

Einar segir ekki ólíklegt að ein ástæðan fyrir því að menn hverfi af þingi eftir skamma dvöl séu þessi átök og þessi átakastjórnmál sem hafi verið - ekki bara í ár heldur undanfarin ár. Það geri það að verkum að þeir sem gætu hugsað sér að vinna að þjóðmálum telji þetta starf ekki eftirsóknarvert. Einar telur þó að það megi skynja ákveðnar breytingar. „Síðan mega menn ekkert gleyma því að þeir tímar sem hafa komið í átökum þeir hafa ekki líka liðið. Við höfum tekið eftir því að á vorþinginu hafi farið fram mjög gagnlegar og málefnalegar umræður og sama tel ég hafa átt sér stað í haust.“