Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Mikil andstaða við hvalveiðar innan ESB

07.04.2014 - 09:07
Mynd með færslu
 Mynd:
ESB var tilbúið að hefja viðræður í fimm af þeim sex köflum sem ekki höfðu verið opnaðir þegar hlé var gert á viðræðunum. Kaflinn um umhverfismál hefði orðið einna erfiðastur, einkum vegna hvalveiða Íslendinga og þeirrri almennu andstöðu sem er gegn slíkum veiðum innan aðildarríkja ESB.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Alþjóðmálastofnunar um aðildarviðræður Íslands við ESB sem kynnt er á fundi á Grand Hótel.

Af þessum fimm köflum var vilji hjá bæði ESB og Íslandi að hefja viðræður í fjórum þeirra á fyrri hluta árs 2013 -  öllum nema kaflanum um landbúnað og dreifbýlisþróun.  Íslensk stjörnvöld vildu ná samstöðu meðal allra í samningahópnum um samningsafstöðu áður en af stað væri haldið með kafla ellefu.

Í skýrslunni segir að ef ekki hefði komið til viðræðuhlés hefði mátt búast við að um mitt ár 2013 hefði heildarfjöldi opnaðra samningskafla verið komin í 31. Kaflarnir um landbúnað og sjávarútveg hefðu þá verið einu óopnuðu efniskaflar aðildarviðræðnanna.

Í skýrslunni kemur enn fremur fram að kafli númer 27, um umhverfismál, hefði orðið einna erfiðastur. Telja skýrsluhöfundar það einkum vera vegna hvalveiða Íslendinga og þeirri almennu andstöðu sem er gegn hvalveiðum innan aðildarríkja ESB. „Samningar um þennan kafla hefðu að öllum líkindum verið geymdir fram undir lok aðildarviðræðnanna þegar síðustu ágreiningsefnin yrðu rædd,“ segir í skýrslunni.

[email protected]