„Mikil æfing ekki endilega betri."

Mynd: EPA / EPA

„Mikil æfing ekki endilega betri."

21.08.2017 - 21:57
150 ára afmæli Skotfélags Reykjavíkur er fagnað um þessar mundir en félagið er elsta íþróttafélag Íslands. Af því tilefni fékk félagið þrefaldan Ólympíumeistara í skotfimi til að halda erindi í dag um markmiðasetningu og æfingar afreksíþróttafólks.

Ítalinn Niccolo Campriani vann tvenn gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Ríó auk gulls og silfurs á leikunum í London fyrir fimm árum. Hann og unnusta hans, Petra Zublasing sem státar bæði af heims- og Evrópumeistaratitlum, ræddu markmiðasetningu afreksfólks í Háskólanum í Reykjavík.

Sífellt er klifað á því að andlegi þáttur æfinga íþróttafólks sé vanræktur. Petra segir það pínu þversagnakennt því almennt viðurkenni allir að andlegur undirbúningur sé mikilvægur en sinni honum samt ekki.

Æfingin skapar meistarann, segir orðatiltækið, en að mati Niccolo er það ekki alveg svo einfalt. „Í íþróttum er mikil æfing ekki endilega betri heldur hversu vel maður æfir,“ sagði Niccolo í viðtali við RÚV í dag.

Viðtöl við þau Niccolo Campriani og Petru Zublasing má sjá í spilaranum hér að ofan.