Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mikil aðsókn og kostnaður meiri en til stóð

Fleiri nýta sér þjónustu sjúkraþjálfara eftir að nýtt greiðsluþátttökukerfi tók gildi fyrir rúmu ári. Sjúkraþjálfarar eru ánægðir með kerfið en líst illa á vinnuskjal sem birtist vegna misskilnings á vef Sjúkratrygginga Íslands í byrjun vikunnar.

Fleiri neitað sér um þjónustuna

Í nýja kerfinu greiðir fólk mun minna úr eigin vasa en áður, að meðaltali 21 þúsund á ári í stað 47 þúsund króna í gamla kerfinu.  Aðsókn hefur aukist. „Og kannski sérstaklega ákveðnir hópar, tekjulægri hópar sem hafa þá núna meira aðgengi að okkur.“

Það hafi verið meira um það í gamla kerfinu að fólk hætti meðferð áður en henni var lokið eða neitaði sér um þjónustuna. „Það var orðið mjög augljóst síðustu ár að það var ákveðinn hópur sem kom og byrjaði jafnvel ekki í meðferð þegar hann komst að því hvað hún kostaði.“ 

„Betra en gamla“

Að mati félagsins er nýja kerfið betra en það gamla. „Þetta er gott kerfi, það er sanngjarnt,“ Segir Kristján Hjálmar Ragnarsson, sjúkraþjálfari og meðlimur í samninganefnd sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara. Í nýja kerfinu séu komur til sérfræðinga, í þjálfun, heilsugæsla og rannsóknir komnar undir einn hatt.  Gunnlaugur segir tölurnar einungis segja hálfa söguna, nýja kerfið sé ólíkt því gamla að því leyti að margvísleg þjónusta heyri nú undir eitt og sama kerfi. Fólk sé því oft búið að greiða mikið áður en það kemur til sjúkraþjálfara, það skýri að einhverju leyti lækkun kostnaðar skjólstæðinga.

Lengri biðlistar

Áhrifin greiðsluþátttökukerfisins eru ekki bara jákvæð - álag á sjúkraþjálfara jókst og biðlistar lengdust. „Alveg tveir mánuðir plús jafnvel sem fólk þarf að bíða.“ 

Voru þeir ekki til staðar í gamla kerfinu?

„Nei, ekki í þessu magni.“

Þá hafi kerfið aukið tekjumöguleika sjúkraþjálfara. „ Og þá kannski togast fólk frekar af Landspítalanum og þannig stofnunum yfir í sjálfstæða geirann.“

Dýrara en það átti að vera

Nú, rúmu ári eftir breytinguna, hefur hægt nokkuð á aukningunni en aðsóknin jókst meira en Sjúkratryggingar Íslands lögðu upp með og kostnaðurinn sömuleiðis. 

„Þetta er vissulega meira en fjárheimildir gerðu ráð fyrir, “ segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. 

Skjal sem átti ekki að birta

350 sjúkraþjálfarar af um 600 eiga aðild að rammasamningi við ríkið sem rennur út í lok janúar. Á mánudag birtu Sjúkratryggingar Íslands skjal á vefsíðu sinni með nýjum skilyrðum fyrir því að veita nýjum sjúkraþjálfurum aðild að samningnum. Þar er meðal annars kveðið á um hámarksfjölda sjúkraþjálfara á ákveðnum svæðum, miðað við fjölda íbúa. Í gær sendu starfsmenn stofnunarinnar svo tilkynningu til sjúkraþjálfara þar sem vakin var athygli á breyttum reglum. „Það er nú bara vinnuskjal og var því miður birt fyrir misskilning, það er alls ekki klárað og verður fjarlægt af netinu, í nýjum samningi er þetta eitthvað sem við munum skoða,“ segir María. 

Þetta verði skoðað með sjúkraþjálfurum, þegar kemur að því að gera nýjan rammasamning og haft að leiðarljósi að fólk þurfi ekki að neita sér um þjónustu vegna kostnaðar. Þá verði horft til þess að biðlistar verði ekki of langir og álag á sjúkraþjálfara hóflegt. 

Líst illa á takmarkanir

Félagi sjúkraþjálfara líst illa á það, verði aðgengi sjúkraþjálfara að rammasamningi takmarkað. Það skapi óvissu fyrir félagsmenn og þá sem eru að útskrifast. Þá hafi það þau áhrif að biðlistar lengist og önnur úrræði verði frekar fyrir valinu. „Hjúkrunarheimili og annað og ásókn í bólgu og verkjalyf verði meiri,“ segir Kristján.

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV