Mikið um rafmagnstruflanir vegna óveðursins

11.12.2019 - 00:51
Innlent · Óveður · Veður
Mynd með færslu
 Mynd:
Óveðrið hefur valdið töluverðum rafmagnstruflunum, einkum á norðanverðu landinu. Rafmagnslaust er á Sauðárkróki og á Raufarhöfn, Bakkafirði, Kópaskeri og Þórshöfn er rafmagn nú framleitt með varaaflsstöð Rarik eftir að miklar skemmdir urðu á Kópaskerslínu 1 í kvöld. Í tilkynningu á Facebooksíðu Landsnets segir að minnst 14 stæður hafi brotnað í þeirri línu og ekki verður byrjað að reyna að gera við þær fyrr en veðrinu slotar.

Rafmagn er komið á kísilverksmiðjuna á Bakka, en það datt út um áttaleytið í kvöld þegar rafmagn fór af Þeistareykjalínu 1 vegna ísingar á línunni. Rafmagn fór líka af Húsavík í dag, komst svo á í kvöld en datt aftur út nú á fyrsta tímanum. Samkvæmt tilkynningu á síðu Landsnets ætti ekki að líða á löngu uns það kemst aftur á.  

Þá er Hrútatungulína 1, í Hrútafirði, úr rekstri, líkast til vegna mikils snjós og seltu í tengivirkinu í Hrútatungu. Vegna þessa er Norðvesturland, vestan Blönduóss, án rafmagns frá meginflutningskerfinu. Þar er þó ekki rafmagnslaust en nokkuð um truflanir og voru Vestfirðir norðaverðir lýstir með varaafli um hríð.  Rafmagn hefur farið af á fleiri stöðum, svo sem á Siglufirði og Dalvík, og ítrekað varð útleysing á Blöndulínum eitt og tvö og víðar. Búast má við áframhaldandi rafmagnstruflunum.