Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mikið sem dynur á ungum manni

Mynd: RÚV/samsett mynd / RÚV/samsett mynd

Mikið sem dynur á ungum manni

31.03.2019 - 15:53

Höfundar

„Hann er hittinn á krækjur. Þegar maður hlustar er maður strax farinn að humma með,“ segir útvarpsmaðurinn Pétur Grétarsson um plötuna Afsakanir með tónlistarmanninum Auði.

Á plötunni berar tónlistarmaðurinn Auðunn Lútersson sig inn að kviku með bersöglum textum um eigið líf og ástarsorg við grípandi R-og-B-skotna popptóna. Útgáfutónleikar Auðar voru í Gamla bíói á föstudaginn og af því tilefni var platan rædd í Lestarklefanum. „Afsakanir er skemmtilega uppbyggð, hann tengir hana saman með svona stúdíógjálfri,“ segir Pétur. „Konseptið er býsna sterkt, þetta er dálítið mikið sem dynur á ungum manni og greinilega ekki verið að tala til minnar kynslóðar. Það er mjög langt síðan að ég hef verið freðinn,“ segir hann og vísar í einn helsta smell plötunnar.

„Mér finnst þetta ótrúlega flott plata,“ segir Atli Bollason menningarrýnir. Platan sé hálfgert konsept-verk, saga frá sjónarhóli stráks af sambandsslitum, sem verða vegna misgjörða hans. „Mér varð hugsað til A Grand don't come for Free með The Streets. Einföld saga sem er sögð út í gegn, að sumu leyti eins og sjónvarpsþáttur.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Gestir Lestarklefans, Atli Bollason, Lóa Hjálmtýsdóttir og Pétur Grétarsson ræddu við Bergstein Sigurðsson um það sem borið hefur hæst í menningarlífinu síðustu daga.

„Mér finnst hún vera rosa vel uppröðuð,“ segir teiknarinn og tónlistarkonan Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir og tekur undir með Atla að henni hafi verið hugsað til plötu The Streets. Hún setji þó ákveðið spurningamerki við afsökunarbeiðni fyrir opnum tjöldum, eins og platan virðist vera. „Það er ekki einlæg afsökunarbeiðni. En í list má maður náttúrulega taka sér alls konar leyfi, kannski er þessi manneskja ekki til.“ Atli segist einnig hafa velt þessu fyrir sér. „Mér hefur stundum fundist í þessum geira, getum kallað hann „nýju einlægnina“, að oft sé einlægnin narsissísk. Stundum læddist að mér sá grunur að platan væri 35 mínútna „selfie“. En eftir því sem ég hlustaði betur og oftar fannst mér hann detta réttum megin, að þetta sé alvöru einlægni.“

Fjallað var um Afsakanir í Lestarklefanum.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Lestarklefinn - Hönnun, Afsakanir og Gervais

Tónlist

Freðinn og Þreyttur í hljómsveitarbúningi

Tónlist

Auður með flestar tilnefningar

Tónlist

Spólað í torfærum sálarinnar