Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Mikið rof í jarðlögum við Öskju

23.07.2014 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Flóðbylgjurnar í Öskjuvatni eftir berghlaupið þar í fyrrinótt gerðu það að verkum að mikið rof hefur orðið í veikum vikurlögum í kringum vatnið og hættulegt er að fara þar um, segir Hjörleifur Finnson, þjóðgarðsvörður í Öskju. Gönguleiðir þar eru lokaðar, en þó er leiðin upp að Víti opin.

„Það virðist svo sem bergið og jarðvegurinn hafi brotnað frá efstu eggjum fjallsins fyrir ofan Öskjuvatn og mikið magn hrunið niður,“ segir Hjörleifur, sem var staddur við vatnið þegar rætt var við hann í hádegisfréttum RÚV. „Flóðbylgjurnar sem komu í kjölfarið hafa valdið miklu rofi í veikum jarðlögum úr vikri, allt í kringum vatnið og þess vegna eru gönguleiðirnar lokaðar.“ Berghlaupið varð í suð-austurhluta sigdældarinnar Öskju, á svæði sem kallað er Suðurbotnar. 

Hjörleifur tekur þó fram að gönguleiðin frá bílastæðinu að Víti sé þó opin, en ekki lengra. „Þar fær fólk yfirsýn yfir vatnið og staðinn þar sem framhlaupið varð. Skoða þarf vel aðstæður þarna. Ég hef sjálfur séð staði þar sem augljósar hættur eru til staðar. Við erum búnir að girða gönguleiðirnar af og þar er vakt til að hindra aðgang ferðamanna.“

Hjörleifur segir óvíst hvenær gönguleiðir við Öskjuvatn verða opnaðar að nýju. Hann segir að á venjulegum degi megi búast við að á milli 10 - 50 manns gætu verið á göngu þar sem fljóðbylgjan kom á land við gíginn Víti, sem er við norðurströnd Öskjuvatns, gengt staðnum þar sem berghlaupið varð. 

Sérfræðingar Veðurstofunnar eru á leið að Öskju til skoða aðstæður, og á morgun verður þyrla Landhelgisgæslunnar send af stað með fleiri vísindamenn og fulltrúa Almannavarna sem meta munu aðstæður og ákveða með framhaldið hvað aðgengi ferðamanna varðar.