Mikið manntjón í flóðum og skriðum í Kenía

04.05.2018 - 04:11
Erlent · Hamfarir · Afríka · Kenía · Veður
epa06709093 Displaced woman and children wash their household items with flood water where flood victims have been camping in Garashi, Kilifi County, southern Kenya, 03 May 2018. Kenya Red Cross said on 01 May that it estimates at least 100 people have
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Á annað hundrað manns hafa farist í flóðum og skriðuföllum í Kenía á undanförnum vikum og yfir 200.000 hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín vegna hamfaranna. Eftir langvarandi þurrka, sem kostað hafa fjölda mannslífa og miklar búsifjar í landbúnaði, jafnt í jarðyrkju sem búfjárrækt, skall á með miklum rigningum snemma í apríl. Aurskriður hafa sópað húsum í burtu, heilu þorpin mara í hálfu kafi og nokkrir helstu þjóðvegir landsins hafa lokast vegna vatnavaxta og skriðufalla.

Þannig var vegurinn milli höfuðborgarinnar Naíróbí og hafnarborgarinnar Mombasa á kafi í aurvatni í síðustu viku. Rauði Krossinn í Kenía hefur kallað eftir alþjóðlegri neyðaraðstoð við minnst 150.000 manns sem búa við þröngan kost í mis traustum neyðarskýlum.

Her, lögregla og aðrir viðbragðsaðilar hafa flutt töluvert af fólki frá flóðasvæðunum á öruggari slóðir, meðal annars með þyrlum, en Abbas Gullet, framkvæmdastjóri Rauða krossins í Kenía, segir mikið vanta á að björgunarstarf og neyðaraðstoð sé fullnægjandi. Einnig óttast hann að farsóttir geti blossað upp, þar sem flóðasvæðin mynda kjöraðstæður fyrir ýmsar sóttkveikjur.

Gullet hvetur stjórnvöld til að lýsa yfir neyðarástandi á landsvísu til að auðvelda jafnt opinberum viðbragðsaðilum sem frjálsum félagasamtökum að bregðast við af þeim krafti sem til þarf. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi