Mikið mannfall í mótmælum á Gaza

14.05.2018 - 18:35
Ísraelskir hermenn hafa skotið að minnsta kosti 52 Palestínumenn til bana í mótmælum á Gaza-ströndinni í dag. Mannfallið á Gaza er það mesta í fjögur ár. Meira en 2.000 eru særðir. Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, hefur lýst yfir þriggja daga sorg vegna mannfallsins.

Bandaríska sendiráðið var opnað í Jerúsalem klukkan 13 í dag að íslenskum tíma en í dag fagna Ísraelar því að 70 ár eru liðin frá stofnun Ísraelsríkis. Trump sagði í ræðu um fjarfundabúnað við opnunina að Bandaríkin vildu stuðla að friði til frambúðar. Abbas sagði síðdegis að sendiráðið jafnaðist á við nýja bandaríska landnemabyggð í Jersúalem. Friðar væri ekki að vænta undir leiðsögn Bandaríkjamanna. 

Flutningur bandaríska sendiráðsins hefur víða vakið hörð viðbrögð og hefur Arababandalagið lýst gjörninginn ólöglegan og boðað til aukafundar vegna málsins á miðvikudag. Mansour Al-Otaibi, fastafulltrúi Kúveit hjá Sameinuðu þjóðunum, útilokar ekki að farið verði fram á krísufund í öryggisráðinu. 

Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels varði í dag aðgerðir ísraelska hersins - sagði að ríkið hefði rétt á því að verja landamæri sín. Hamas samtökin hefðu lýst því markmiði sínu að eyða Ísrael og sendu þúsundir manna til að ryðja niður landamæragirðingarnar til að ná því fram. Ísraelar ætli að halda áfram að standa vörð um fullveldi sitt og borgara. 

Palestínumenn hafa mótmælt við landamæri Gaza að Ísrael undanfarnar sex vikur og hefur verið boðað að þeim ljúki á morgun, 15. maí, daginn sem Palestínumenn kalla Nakba, eða hörmungardaginn. Þann dag árið 1948 flúðu hundruð þúsunda Palestínumanna eða voru hraktir á brott eftir stofnun Ísraelsríkis. 

AFP greinir frá því að mannfalllið á Gaza í dag sé það mesta í deilu þjóðanna frá árinu 2014.  Frá því sex vikna mótmælin hófust hafi ísraelskir hermenn skotið um hundrað Palestínumenn til bana. Á sama tímabili hafi ekki verið tilkynnt um mannfall í herliði Ísraels.   

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV