Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mikið magn fentanýls fannst í Nebraska

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia - wikipedia
Lögregla í Nebraska í Bandaríkjunum fann í síðasta mánuði rúmlega fimmtíu kílógrömm af verkjalyfinu fentanýli. Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá þessu. Lyfið fannst í földu rými í farangursgeymslu flutningabíls. Magnið er það mesta sem hald hefur verið lagt á í ríkinu, og eitt það mesta í sögu Bandaríkjanna.

Upp komst um efnið þegar lögregla varð vör við undarlegt aksturslag flutningabílsins. Lögregla stöðvaði því bílinn og leitaði í farangursrýminu, þar sem efnið fannst vandlega innpakkað í leynirými í farangursgeymslunni. Bílstjórinn og farþegi hans voru báðir handteknir. 

Fentanýl er rótsterkt verkjalyf, allt að 30 til 50 sinnum sterkara en heróín. Lyfið er í flokki ópíóíða, sem hafa valdið dauða fjölda Bandaríkjamanna á undanförnum misserum. Magnið sem fannst um borð í flutningabílnum gæti banað yfir 26 milljónum manna, samkvæmt mælingum lyfjaeftirlits Bandaríkjanna, DEA.

Aðeins tvö milligrömm af fentanýli eru nóg til þess að verða fólki að bana. Neysla fentanýls veldur meðal annars sljóleika og svima, en ofneysla þess getur valdið öndunarerfiðleikum og jafnvel dauða. Bandarísk yfirvöld segja dauðsföll af völdum ópíóíða, á borð við fentanýl, hafa tvöfaldast á milli áranna 2015 og 2016. 

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV