Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Miguel Diaz-Canel orðinn forseti Kúbu

19.04.2018 - 16:52
Cuba's new president Miguel Diaz-Canel, left, and former president Raul Castro, raise their arms after Diaz-Canel was elected as the island nation's new president, at the National Assembly in Havana, Cuba, Thursday, April 19, 2018. Castro left
 Mynd: AP
Nýr Kúbuforseti sór embættiseið í dag, sá fyrsti í tæp 60 ár sem ekki heitir Castro. Hann hét því í fyrstu ræðu sinni að halda byltingu forvera sinna áfram. 

 

Tveggja daga þinghaldi í kúbverska þinginu lauk í dag þar sem nýr forseti var kjörinn. Þingforseti komst varla að til að greina frá úrslitum kosninganna fyrir fagnaðarlátum. 

Nýr forseti Miguel Diaz-Canel var kjörinn með 603 atkvæðum en 604 þingmenn voru viðstaddir. Hann er 57 ára og því fæddur nokkru eftir að Fidel Castro komst til valda á Kúbu. Hann hefur starfað innan kommúnistaflokksins í áratugi. Í fyrstu ræðu sinni sagðist hann ekki ætla að hvika frá stefnu forvera sinna, Rauls og Fidels Castro.

Diaz-Canel segir þetta sögulega stund. Hann ætli að byggja ofan á vinnu Castro-bræðranna og bæta efnahagsástandið á Kúbu.

Þetta eru mikil tímamót á Kúbu en ólíklegt er að þeim fylgi miklar breytingar, í það minnsta til að byrja með. Þrátt fyrir að Raul Castro hverfi af forsetastóli er hann þó ekki að afsala sér öllum völdum. Hann verður áfram leiðtogi kommúnistaflokksins, sem er staða sem veitir honum umtalsverð völd. 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV