Miðjufólk átti erfiðara með að ákveða sig

Mynd: RÚV / RÚV
Óformleg könnun kleinuhringjasala spáði einna best fyrir um úrslit kosninganna. Í þeim könnunum sem gerðar voru dagana fyrir kosningar var fylgi Pírata ofmetið, það mældist 17,9% hjá Gallup og 21% hjá Félagsvísindastofnun HÍ. Þegar talið var upp úr kjörkössunum kom aftur á móti í ljós að 14,4% kjósenda höfðu sett X við P. Kannanir vanmátu fylgi Sjálfstæðisflokksins, mismikið þó.

Könnun Gallup, sem birt var degi fyrir kjördag, gaf til kynna að Sjálfstæðisflokkurinn nyti 27% fylgis en í könnun Félagsvísindastofnunar, sem birt var sama dag, mældist fylgi hans 22,5%. Flokkurinn hlaut 29% atkvæða í kosningunum. Páll Ásgeir Guðmundsson, sviðsstjóri markaðsrannsókna hjá Gallup segir könnunina hafa verið nokkuð áreiðanlega. 

„Það er ekki hægt að segja að skekkjan hafi verið mikil í könnun Gallup fyrir RÚV sem var birt daginn fyrir kjördag. Meðalfrávik var 1,2% þegar horft var til allra flokka og ef við horfum sérstaklega á þá sem náðu inn manni, þessa sjö, þá er meðalfrávikið upp á 1,7% sem verður að teljast vel viðunandi. Þetta var könnun með ríflega 55% svarhlutfalli, rúmlega 1700 manns gáfu upp afstöðu og niðurstöður því nokkuð áreiðanlegar.“

Hvers vegna var fylgi Pírata ofmetið?

Rúmlega þriðjungur þeirra sem hugðust kjósa Sjálfstæðisflokkinn í könnun Gallup voru komnir yfir sextugt. Aldurssamsetning hópsins sem hafði hug á að kjósa Pírata var á annan veg. Tæplega þriðjungur var undir þrítugu. Ekki liggur fyrir hver aldursskipting kjósenda var í kosningunum en reynslan sýnir að eldra fólk mætir frekar á kjörstað en yngra fólk. Páll Ásgeir segir tvær ástæður fyrir því að fylgið var ofmetið í skoðanakönnunum. 

„Sú fyrri, sem vegur væntanlega þyngra, er kjörsóknin. Kannanir höfðu sýnt að samsetning fylgis Pírata var þannig að þeir höfðu sterkari stöðu í yngri aldurshópum, þeir skila sér alla jafna verr á kjörstað og það reyndist sennilega raunin á kosningunum núna á laugardag. Kjörsóknin fór niður fyrir 80% og allar líkur til þess að Píratar hafi fengið minna fylgi af þeim sökum. Hin ástæðan er væntanlega sú að viku fyrir kosningar kemur útspil frá Pírötum. Það hefur auðvitað áhrif á hvernig fólk horfir á landslagið. Svo má ekki gleyma því að daginn fyrir kjördag er hér umræðuþáttur formannanna og frammistaða frambjóðenda hefur að sjálfsögðu áhrif á kjörhegðun fólks.“

Hann segir erfitt að segja til um hversu mikil áhrif frammistaða formannanna í þættinum hafði. 

„Það hafði einhver áhrif. Ríflega þriðjungur þjóðarinnar horfði eitthvað á þennan þátt og líklegt að hann hafi gert það, meðal annars, til þess að fá upplýsingar til þess að gera upp hug sinn.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Fulltrúar stjórnarandstöðu funduðu á Lækjarbrekku.

Framsóknarflokkur fékk betri kosningu en búist var við, frávikið nam 2,2 prósentustigum. 

„Aftur er skýringa að leita að einhverju leyti í kjörsókn. Í síðustu mælingu okkar fyrir Rúv kom fram að Framsóknarflokkur var með langminnst fylgi í yngsta aldursbilinu. Það þýðir að slæm kjörsókn hjá 18-24 ára færir fylgið upp. Svo koma margir aðrir þættir inn í þetta. Hreyfing er mikil í aðdraganda kosninga og erfitt að segja til um hver áhrifin eru af einstaka þáttum.“

Hrært upp í miðjunni

Páll telur að hugmynd Pírata um að mynda kosningabandalag með hinum stjórnarandstöðuflokkunum hafi hrært upp í miðjunni. 

„Þetta útspil Pírata hefur að öllum líkindum haft áhrif á miðjuna. Við sáum það bæði á kjörtímabilinu miðju og í gögnunum okkar í aðdraganda kosninga að fólk sem aðhyllist flokka sem eru inni á miðju eða teljast til miðjuflokka, Viðreisnar, Pírata, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, meira að segja yfir á Vinstri græna. Þeir kjósendur voru ekki jafnvissir í vali sínu á flokk eins og þeir sem sögðust ætla að kjósa Sjálfstæðisflokk eða Framsóknarflokk. Það var fyrirséð að þessi hluti kjósenda var ekki búinn að gera upp hug sinn í jafnmiklum mæli og kjósendur hægra megin við miðju.“

Hann telur ekki að fylgi hafi verið á hreyfingu milli Pírata og stjórnarflokkanna. 

„Þegar fylgisaukning Pírata varð um mitt kjörtímabil er ljóst að þeir sem voru að missa fylgi á sama tíma voru Samfylking og Björt framtíð. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur voru ótrúlega stöðugir yfir þennan tíma sem fylgisaukning Pírata er að eiga sér stað. Að sama skapi, þegar horft er til þróunar upp úr því að ákveðið er að kjósa í haust, þegar fylgi Pírata fer að dala, þá sækir það, að því er virðist, aftur inn á miðju og það verður fylgisaukning hjá VIðreisn, sem kemur ný inn á miðjuna og að einhverju leyti hjá Bjartri Framtíð og Vinstri grænum.“ 

 

Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarni Benediktsson.

Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig eftir að Píratar kunngjörðu um kosningabandalag, svo virðist sem fólk hafi ákveðið að kjósa strategískt til að koma í veg fyrir að bandalagið næði fram að ganga. Í könnun Gallup, sem birt var þann 14, október, tveimur dögum áður en Birgitta hélt blaðamannafund, mældist flokkurinn með 23% fylgi, degi fyrir kosningar mældist hann með 27% fylgi og í kosningunum féllu 29% atkvæða í hans skaut. Páll segir að fylgi við Sjálfstæðisflokkinn hafi ekki verið vanmetið í könnun Gallup sem gerð var dagana 24. til 28. október, það hafi verið innan vikmarka. Skekkjan var meiri í könnun Félagsvísindastofnunar, Páll telur það ráðast af því að hún var gerð yfir lengra tímabil, frá 20. til 27. október.

Kleinuhringjarisi sannspár

Mynd með færslu
 Mynd:

 

Sú könnun sem spáði einna best fyrir um úrslit kosninganna var könnun kleinuhringjasalans Dunkin donuts. Hún spáði Sjálfstæðisflokknum 28% fylgi, og komst nær kjörfylgi hans en nokkur önnur könnun. Þá reyndist hún einnig sannspárri en Gallup um fylgi Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Framsóknar og Samfylkingar. Gallup og kleinuhringjarisinn voru jafn fjarri lagi þegar kom að fylgi Viðreisnar, 1,6 prósentustigum. Þá ofmat Dunkin donuts fylgi Pírata aðeins meira en Gallup en það munaði einungis 0,1 prósentustigi á spám þeirra. Sigurður Karlsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að seldir kleinuhringir hafi verið á annað þúsund og voru þeir merktir flokkunum sem buðu fram. Sölutölur voru svo skoðaðar daginn fyrir kosningar. Hann segist ekki hafa átt von á því að fjöldi seldra kleinuhringja af hverri gerð yrði í samræmi við niðurstöður kosninganna. 

„Það var svosem ekki markmiðið okkar að finna út hver nákvæm niðurstaða yrði. Við sögðum svolítið í upphafi að allir sem væru óákveðnir ættu að koma á Dunkin Donuts og velja þann hring sem þeim litist best á og kjósa eftir því. Þetta var aðallega gert til þess að búa til skemmtilega stemmningu. Svo bara vildi svo skemmtilega til að þetta hitti svona nálægt endanlegum úrslitum.“

Út frá þessu mætti ætla að þverskurður þjóðarinnar hafi verslað við fyrirtækið dagana fyrir kosningar. Viðskiptavinir hafi verið strangheiðarlegir í sínum kleinuhringjakaupum og opinberað afstöðu sína við afgreiðsluborðið. Þeir virðist síður hafa valið að éta andstæðinga sína. Páll Ásgeir skrifar þetta þó allt saman á tilviljun. 

„Þetta var skemmtilegt markaðstrikk hjá þeim og enn skemmtilegra að þeir skyldu hitta svona vel á, ég myndi samt ekki treysta þessari aðferð við skoðanakannanir, svona heilt yfir.“

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi