Miðflokkurinn vill upplýsa um lyf í landbúnaði

26.01.2019 - 14:52
Hráir kjötbitar í matvörubúð.
 Mynd: Koos Schwaneberg - Freeimages
Þingmenn Miðflokksins vinna nú að frumvarpi sem miðar að því að upplýsa hvaða lyf hafa verið notuð í framleiðslu landbúnaðarvara. Frumvarpið á að gera neytendum kleift að nálgast upplýsingar um lyfin í hverri vöru fyrir sig og á að ná til innlendra og erlendra landbúnaðarvara.

Sýklaónæmi ein mesta lýðheilsuógn samtímans

Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir á sýkla og veirufræðideild Landspítala, sagði við RÚV í byrjun árs að sporna verði við auknum innflutningi á erlendum matvælum. Sýklalyfjanotkun í erlendum landbúnaði auki hættu á útbreiðslu baktería sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum sem sé ein mesta lýðheilsuógn heims. Sjálfur segist hann sneiða alveg hjá innfluttu grænmeti og reynir að kaupa bara íslenskt kjöt. 

Lítil sem engin hætta

ÓIafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, vísaði þessu á bug og sagði samtökin hafa látið óháða sérfræðinga vinna fyrir sig skýrslu sem sýndi að „að áhættan af innflutningi á ferskri matvöru væri lítil sem engin.“ Þeirra niðurstaða hafa verið að aukin ferðalög milli landa, aukin ferðamannastraumur og ofnotkun á sýklalyfjum í heilbrigðiskerfinu væru stærri áhættuþættir.

Neytendur verði upplýstir um lyfjanotkun

Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður Miðflokksins, sneri aftur á þing á fimmtudag eftir eins og hálfsmánaðar leyfi vegna Klausturmálsins. Hann ritaði í dag grein í Morgunblaðið þar sem hann fer yfir ábendingar Karls og þá hættu sem stafi af sýklalyfjanotkun í erlendum landbúnaði. Þar greinir hann frá því að Miðflokkurinn vinni nú að frumvarpi sem miðar að því að upplýsa neytendur hversu mikið magn af lyfjum hefur verið notað í framleiðslu á landbúnaðarvörum, innlendum og erlendum. 

„Þegar við stönd­um við kjöt­borðið í versl­un­um þá höf­um við ekki hug­mynd um hvort og í hvaða magni lyf, þ.m.t. sýkla­lyf, hafi verið notuð við fram­leiðslu vör­unn­ar. Við sjá­um í mörg­um til­fell­um upp­runa­land vör­unn­ar sem vissu­lega var til bóta en þær merk­ing­ar eru litl­ar og lítt sjá­an­leg­ar,” skrifar Gunnar Bragi. „Neyt­end­ur eiga að hafa aðgang að upp­lýs­ing­um um lyfja­notk­un og mögu­leg­ar lyfja­leif­ar eða annarra efna í þeim mat­vör­um sem þeir kaupa.”

Gunnar Bragi hefur ekki viljað veita fréttastofu viðtal undanfarna daga.  

 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi