Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Miðflokkurinn bætir við sig fylgi

01.03.2018 - 20:14
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson - RÚV
Miðflokkurinn bætir við sig næstum tveggja prósenta fylgi milli skoðanakannana. Fylgi annarra flokka er óbreytt eða lítið breytt frá því í síðasta mánuði. Ríkisstjórnin nýtur stuðnings drjúgs meirihluta landsmanna. Töluvert hefur þó dregið úr stuðningi við hana. 74 prósent studdu stjórnina í desember en sá stuðningur er kominn niður í 64 prósent.

Sjálfstæðisflokkurinn nýtur sem fyrr mest stuðnings stjórnmálaflokka. Hann mælist nú með 23,5 prósenta stuðning en var með tæp 26 prósent síðast. Vinstri græn eru næst stærsti flokkurinn með 16,6 prósenta fylgi samkvæmt könnuninni og Samfylkingin er í þriðja sæti með 15,3 prósent. Píratar mælast með 11,9 prósent en aðrir flokkar eru allir undir tíu prósentunum. Framsóknarflokkurinn fengi 9,3 prósent samkvæmt könnuninni, Miðflokkurinn 8,6 prósent og Viðreisn 6,8 prósent. 5,9 prósent segjast myndu kjósa Miðflokkinn. Samkvæmt þessu myndu allir flokkar sem nú eiga sæti á þingi ná aftur inn á þing ef kosið væri í dag.

Um könnunina: Spurt var: Ef kosið yrði tl Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa? En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu? Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna? Styður þú ríkisstjórnina? Niðurstöðurnar eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 1. til 28. febrúar 2018. Heildarúrtaksstærð var 5.564 og þátttökuhlutall var 55,3%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,4-1,6%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV