Miðflokksmenn fara fram á frekari nefndarstörf

26.02.2019 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingflokkur Miðflokksins kom saman til fyrsta fundar í hádeginu eftir að Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason gengu til liðs við hann síðasta föstudag. 

Helsta breytingin er sú á þá telur þingflokkur Miðflokksins níu þingmenn og þar með er hann orðinn stærsti flokkurinn í stjórnarandstöðu á Alþingi. Fundur þeirra hófst klukkan tólf og þar eru störfin framundan til umræðu en þeir Ólafur og Karl Gauti voru reknir úr Flokki fólksins í lok nóvember eftir að þátttaka þeirra í umræðum á Klausturbar komst upp en nú eru allir þeir sem tóku þátt í því samtali í sama þingflokki. 

„Í fyrsta lagi er þetta mjög ánægjulegur dagur að þessir ágætu herramenn séu að koma til liðs við okkur. Þetta að sjálfsögðu þýðir að sjö manna þingflokkur er orðinn níu manna og við munum að sjálfsögðu ætlast til þess að það sé tekið tillit til þess hér á Alþingi eins og eðlilegt er,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Miðflokksins.  

Gunnar Bragi segir að Miðflokkurinn muni fara fram á frekari sæti í nefndum þingsins. „En þær umræður og viðræður hafa ekki farið fram,“ segir Gunnar Bragi sem tekur jafnframt fram að málið hafi ekki verið rætt frekar. Hann segir að stjórn þingflokksins verði óbreytt. 

Gunnar Bragi verður því áfram þingflokksformaður. Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir varaformenn.

Þingfundur hefst svo á Alþingi núna klukkan hálftvö á óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra og síðan er á dagskrá umræða um stöðu ferðaþjónustunnar eins og áður er getið þar sem Albertína Friðbjörg Elíasdóttir er málshefjandi og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála er til svara.