Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Miðborgarslagur í Gettu betur

Mynd með færslu
 Mynd:
Úrslitaviðureign Gettu betur fer fram á föstudagskvöld í Austurbæ en þá eigast við lið MR og Kvennó sem samanlagt eiga að baki 23 sigra í keppninni. Eins og fyrri árin hefur mikið gengið á í aðdraganda úrslitanna en Kvennó á að baki sigra gegn liðum FAS, MB, Borgó og FSu, en MR lagði á leið sinni í úrslitin lið Tækniskólans, Flensborgar, MH og MA

Þetta er í 34.sinn sem keppnin er haldin og hafa MR-ingar oftast farið með sigur af hólmi eða 21 sinni, MA 3svar , Kvennó 2svar og MS, FSu, MK, Borgó, Versló, FB, MH og FG einu sinni. 
Tvö ár eru liðin frá því Kvennó sigraði síðast og þrjú ár eru liðin frá því MR hampaði titlinum en það var einmitt í úrslitum gegn Kvennaskólanum - og má því nærri geta að bæði liðin þyrsti í sigur í ár. 
Að þessu sinni skráðu 28 skólar sig til þátttöku og þeir skólar sem komust í sjónvarpshluta keppninnar voru Borgó, FG, FSu, Kvennaskólinn, MA, MH, MR og Versló. Á föstudagskvöld kemur í ljós hvaða lið stendur uppi sem sigurvegari keppninnar í ár og verður jafnframt handhafi Hljóðnemans, farandgripsins góða. 
Í liði Kvennaskólans eru þau Fjóla Ósk Guðmannsdóttir,  Hlynur Ólason og Berglind Bjarnadóttir og lið MR skipa þau Sigrún Vala Árnadóttir, Hlynur Blær Sigurðsson og Ármann Leifsson.
Spyrill keppninnar er Kristjana Arnarsdóttir, spurningahöfundar og dómarar eru þau Ingileif Friðriksdóttir, Vilhelm Anton Jónsson og Sævar Helgi Bragason. Umsjónarmaður Gettu betur er Elín Sveinsdóttir sem jafnframt stýrir útsendingu.
Úrslitakeppnin er í beinni á RÚV frá Austurbæ og hefst hún kl.19.45.

 

Elín Sveinsdóttir
dagskrárgerðarmaður