Mexíkóar vilja loka landamærunum að Bandaríkjunum

27.03.2020 - 04:55
epa08322789 A woman cleans the streets as she wears a mask for protections against COVID-19, in Mexico City, Mexico, 25 March 2020. The Mexican population is more vulnerable than other countries to the COVID-19 pandemic due to the high prevalence of chronic diseases such as obesity, diabetes and hypertension, according to specialists.  EPA-EFE/Sashenka Gutierrez
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Staðan við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna hefur snúist við síðustu daga. Íbúar mexíkósku borgarinnar Sonora, suður af Arisóna, ætla að koma í veg fyrir ferðir Bandaríkjamanna yfir landamærin til þess að reyna að hefta útbreiðslu kórónaveirufaraldursins í Mexíkó. Innan við 500 tilfelli hafa verið greind í Mexíkó það sem af er, en í Bandaríkjunum nálgast þau 86 þúsund. 

Hópur íbúa Sonora kalla eftir því að allir sem koma yfir landamærin frá Bandaríkjunum verði prófaðir áður en þeir koma til landsins. Hópurinn, sem nefnist Heilsa og líf, segir mexíkósk stjórnvöld engan veginn vera að standa sig við að skoða og greina smit í landinu. Með þessum aðgerðum er hópurinn að þrýsta á forsetann Andres Manuel Lopez Obrador að grípa til harðari aðgerða, hefur BBC eftir Jose Luis Hernandez, einum félagsmanna Heilsu og lífs. 

Hópurinn kallar eftir því að aðeins þeir sem þurfi nauðsynlega að ferðast yfir landamærin fái að gera það. Ferðamenn eigi ekki að fá að fara á milli, né heldur þeir sem fara yfir landamærin á hverjum degi til að mæta í skóla. 

Viðsnúningur við landamærin

Síðustu mánuði og ár hafa það verið stjórnvöld norðan landamæranna sem hafa viljað harðara eftirlit við landamærin. Múr við landamærin var eitt helstu kosningaloforða Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, til þess að halda aftur af komu Mexíkóa til Bandaríkjanna. Hann sagði þá senda ótýnda glæpamenn og nauðgara yfir landamærin. Hann tilkynnti einnig í síðustu viku að hann vildi loka landamærunum til þess að koma í veg fyrir að Mexíkóar gætu komið og smitað Bandaríkjamenn af kórónaveirunni sem tröllríður heimsbyggðinni um þessar mundir. 

Kórónaveiran hefur ekki valdið miklum usla í Arisóna, en um 400 smit hafa hingað til greinst í ríkinu. Að sögn BBC hefur að minnsta kosti einn látið lífið af völdum COVID-19 í hverri sýslu ríkisins sem á landamæri að Mexíkó. Sunnan landamæranna, í Sonora, hafa aðeins fjögur tilfelli greinst hingað til. Fyrsta tilfellið greindist í eldri manni 16. mars, en hann hafði þá nýverið komið frá Bandaríkjunum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi