Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:
Sumarbörn er ný íslensk kvikmynd í leikstjórn Guðrúnar Ragnarsdóttur og jafnframt frumraun leikstjórans í fullri lengd. Sögusviðið er Arnartangi, afskekkt barnaheimili einhvern tímann upp úr miðri síðustu öld þar sem systkinin Eydís og Kári neyðast til að dvelja sumarlangt vegna erfiðleika heima fyrir. Pabbi er að byggja höll í útlöndum, útskýrir Eydís fyrir hinum krökkunum, og mamma er of þreytt til að sjá um þau. Hann verður líka stundum ofsareiður og meiðir mömmu þeirra, en við áhorfendur fáum ekki og þurfum ekki að sjá slæmar aðstæður barnanna því það nægir okkur að heyra einlægar og einfeldningslegar útskýringar sex ára stúlkunnar, enda fylgjum við sjónarhorni hennar út í gegn. Sumarbörn er fjölskyldumynd sem beinir sjónum að erfiðu söguefni og börnum sem hafa svo gott sem verið gerð útlæg úr samfélaginu, en heldur flestu því ljóta á bak við tjöldin og einblínir frekar á jákvæðni og þrautseigju ungrar aðalpersónunnar, svo ekki sé minnst á draumóra hennar. Myndin hefst þegar systkinin kveðja móður sína fyrir framan Austurbæjarskóla og stíga upp í rútu sem ferjar þau ásamt öðrum ólánsömum börnum yfir á dvalarheimilið, þar sem harðsvíraðar fóstrur bíða þess að beita þau aga og hörku sem minnir nánast á herbúðir fyrir krakka. Eydís og Kári vonast til að dvölin verði ekki löng og, rétt eins og hin börnin, lifa þau í þeirri von að mamma sé bara rétt ókomin að sækja þau – en dagarnir líða og aldrei bólar á mömmu …
Sumarbörn segir tvöfalda sögu með því að styðjast við einfalt sjónarhorn barnsins en ýja að ýmsu umhverfis það fyrir eldri áhorfendurna, ekki síst hvað varðar skilning okkar á ferðalagi systkinanna eftir því sem líður á myndina. Með öðrum orðum vill Sumarbörn ná til tveggja ólíkra áhorfendahópa samtímis: barna og fullorðinna. Myndin styðst við töfraraunsæi og ævintýraleg stef til að túlka og kljást við þungt efni og minnir þannig á aðrar svipaðar myndir sem hafa sagt flóknar og erfiðar, stundum jafnvel hrottalegar sögur frá sjónarhóli barns sem hverfur inn í ævintýraheim til að takast á við raunveruleikann – mér detta t.d. Í hug Tideland eftir Terry Gilliam eða Pan's Labyrinth eftir Guillermo del Toro, þótt þær séu báðar frekar stílaðar á fullorðna en ekki yngri áhorfendur, þrátt fyrir að börn séu í aðalhlutverkunum. Sumarbörn sýnir mikinn metnað með því að gera fjölskyldumynd úr dramatískum efnivið, þótt hún eigi stundum í erfiðleikum með að viðhalda þessum tvöfalda tóni, enda vandmeðfarið stílbragð. Það er þó augljóst hvað leikstjórinn Guðrún ber mikla virðingu fyrir yngri áhorfendunum, því hún skilur að börn bæði þola og vilja sjá dramatík og flóknar sögur, en ekki bara endalaust teiknimyndabíó og hasar. Myndin flýtir sér hægt og minnir frekar á gömlu sænsku Astrid Lindgren myndirnar hvað varðar tempó heldur en flest það sem börn sjá í bíó nú á dögum.
Það er reyndar bæði kostur og galli við myndina, því hún verður eiginlega of hæg í fyrri hlutanum og það snýr að miklu leyti að sjónarhorni aðalpersónunnar. Lífið á barnaheimilinu er tilbreytingarlaust og niðurdrepandi og þótt eitthvað sé um prakkaraskap og leik er meira um nöturleika heldur en hitt. Eydís er kölluð óhemja, þótt hún sé ósköp venjulegur og í raun mjög góður krakki, og umhverfið virðist sérhannað til að buga börnin. Starfsfólk er skammað fyrir að sýna þeim samkennd og óhlýðnir krakkar eru sendir út í grjótkofa í einangrun. Þótt titillinn hljómi glaðlyndur fylgir lítil sæla því að vera sumarbarn, en það er þó skárra en að umbreytast í vetrarbarn, því þau eru föst á þessum vansæla stað allt árið um kring. Eydís litla, aðalpersónan okkar, bregst við nöturleikanum með því að hverfa smátt og smátt yfir í eigin fantasíu, en það tekur tíma að fara í gang og brýtur ekki sérstaklega upp mónótóníuna í fyrri hlutanum. Upplifun áhorfenda verður þannig svipuð upplifun Eydísar – endurtekningasöm og dálítið þreytandi – og í því samhengi verður sjónarhorn barnsins frekar heftandi. Það er vissulega óaðskiljanlegur hluti uppbyggingarinnar í myndinni, en takmarkar jafnframt aðgang okkar að öðrum persónum, s.s. fóstrunum, sem við skynjum aldrei nema sem síkvartandi og skammandi nornir. Brynhildur Guðjónsdóttir er vissulega grípandi og ógnvekjandi í hlutverki yfirfóstrunnar Pálinu, enda birtist hún sem slík í augum sex ára stúlkunnar, en sem áhorfandi saknaði ég þess að fá meiri persónusköpun í kringum hana og hitt fólkið á bænum.