Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Metfjöldi styrkumsókna á Þingeyri

07.03.2019 - 21:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Víkingaviðburður, hjólreiðavika og aðdráttarafl fyrir ferðamenn eru meðal sautján verkefna sem fengu í dag styrk í tengslum við byggðaþróunarverkefnið Brothættar byggðir á Þingeyri. Aldrei hafa fleiri verkefni sótt um í sjóð á vegum Brothættra byggða sem þennan.

 

39 sóttu um styrki

Þingeyri varð hluti af þróunarverkefni Byggðastofnunar, Brothættum byggðum, 2017 en þar hefur fólki fækkað mikið og aldursdreifing orðið ójöfn. Liður í verkefninu er að veita styrki til nýsköpunar og samfélagsstyrki á Þingeyri og við Dýrafjörð. Agnes Arnardóttir, verkefnastjóri Brothættra byggða á Þingeyri, segir að því miður hafi aðeins verið hægt að úthluta sjö milljónum en samkeppnin var mikil. „Þetta voru þrjátíu og níu umsóknir og það er algjört met.“

Verkefni sem stuðla að byggðaþróun

Sótt var um rúmlega 30 milljónir og Agnes segir að allar umsóknir hafi tengst Þingeyri eða Dýrafirði og fallið vel að verkefninu, sem kallast Öll vötn til Dýrafjarðar. „Þetta eru allskonar verkefni, samfélagstengd, atvinnuuppbyggingartengd, ferðaþjónustutengd, menningar og listir, bara mikil gróska.“

Áhugi og vilji til að gera eitthvað

Stærstu styrkina fékk Blábankinn á Þingeyri og Tankurinn sem á að verða aðdráttarafl ferðamanna á Þingeyri, hvort verkefni fékk eina milljón. Þar sem styrkirnir voru í raun fyrir árið 2018 eru umsækjendur hvattir til að sækja strax um aftur en stefnt er á aðra úthlutun í apríl. „Þetta sýnir bara að fólk hefur áhuga og vilja til að gera eitthvað.“