Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Metfjöldi leitaði sér aðstoðar á Læknavaktinni

27.12.2018 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Um 740 manns manns leituðu á Læknavaktina helgina fyrir jól og á aðfangadag. Slíkur fjöldi hefur ekki sést áður, segir Gunnlaugur Sigurjónsson lækningaframkvæmdastjóri Læknavaktarinnar. 

Miklar flensupestir hafa hrjáð landsmenn yfir hátíðirnar. Gunnlaugur segir að metfjöldi hafi leitað á Læknavaktina. „Það var mjög mikið að gera helgina fyrir jól, í rauninni aldrei verið jafnmikil aðsókn á læknavaktina fyrr eða síðar. Það komu um 540 manns bæði á laugardag og sunnudag.“

Gunnlaugur segir að um 200 manns hafi komið til þeirra á aðfangadag sem sé einnig óvenjumikið. „Það eru að ganga allskyns loftvegasýkingar, mikið af flensupestum, kvefi, væntanlega ein og ein inflúensa að byrja, RS-sýkingar í börnum, svolítið af magapestum og bara alls kyns.“

Þrátt fyrir mikla aðsókn hafi hlutirnir gengið vel. Gunnlaugur hvetur fólk til að leita sér aðstoðar á hverfisheilsugæslustöðvum á skrifstofutíma en það sé þó ávallt velkomið á Læknavaktina. „Þó að fólk veikist og sé með hita og hósta þá þarf það ekki að hlaupa til læknis einn tveir og þrír. Við veirusýkingum er svo sem ósköp lítið að gera. En ef fólk er búið að vera veikt einhverja daga og er að versna og er með börnin þá er sjálfsagt að kíkja til okkar.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV