Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Metfjöldi kvenna á leið á þing

30.10.2016 - 01:59
Mynd með færslu
Þórdís Kolbrún er nýr þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd: Sjálfstæðisflokkurinn
30 konur taka sæti á Alþingi að afloknum kosningum ef úrslitin verða eins og staðan er nú, þegar rúmlega þriðjungur atkvæða hefur verið talin. Það þýðir að konur verða 47,6 prósent þingmanna. Þó verður að taka þessu með þeim fyrirvara að talsverðar breytingar geta orðið á því hverjir taka sæti á þingi fyrir hönd flokkanna í hvert skipti sem nýjar tölur berast.

Hingað til hafa aldrei verið kosnar fleiri en 27 konur á þing í einum kosningum. Það var í kosningunum 2009. Kvenkyns þingmenn urðu 28 talsins á síðasta kjörtímabili þegar Ásta Guðrún Helgadóttir tók sæti við brotthvarf Jóns Þórs Ólafssonar af þingi. Í október 2009 gerðist það svo að 26 kvenþingmenn og fjórir kvenkyns varaþingmenn sátu á þingi á sama tíma, alls 30 konur og hafa aldrei verið fleiri á þingi samtímis.

Mikill munur er á kynjasamsetningu eftir kjördæmum. Karlar eru 60,7 prósent þingmanna á landsbyggðinni en 45,7 prósent á höfuðborgarsvæðinu. Konur eru því 39,3 prósent þingmanna á landsbyggðinni en 54,3 prósent á höfuðborgarsvæðinu. Það er aðeins í Reykjavíkurkjördæmum sem konur eru í meirihluta þingmanna. Í Reykjavík suður eru sjö konur á leið á þing eins og staðan var rétt fyrir klukkan tvö og sex í Reykjavík norður. Alls eru ellefu þingmenn í hvoru kjördæmi.

Konur í meirihluta í þremur þingflokkum

Hlutur kvenna er hlutfallslega mestur í Bjartri framtíð þar sem þrjár konur og einn karl eru á leið á þing, miðað við stöðuna þegar 35,8 prósent atkvæða höfðu verið talin. Framsóknarflokkurinn kemur næstur með fimm konur og þrjá karla í átta manna þingflokki. Hlutfall kvenna er því 75 prósent hjá Bjartri framtíð og 62,5 prósent í Framsóknarflokknum. Þriðji flokkurinn þar sem konur eru í meirihluta er Vinstrihreyfingin - grænt framboð með 54,5 prósent atkvæða.

Flestir karlar hjá Sjálfstæðisflokknum

Kynjahlutfallið er jafnt hjá Viðreisn (þrjár konur og þrír karlar) og Samfylkingunni (tvær konur og tveir karlar). Karlar eru í meirihluta hjá Pírötum, fimm karlar (55,6 prósent) og fjórar konur (44,4 prósent) eru á leið hjá þeim. 

Tveir af hverjum þremur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins eru karlkyns, fjórtán gegn sjö konum.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV