Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Metfjöldi ferðamanna um jólin

18.12.2018 - 22:53
Innlent · jól
Mynd með færslu
 Mynd:
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að tekjur af ferðamönnum í desember nemi 30 milljörðum króna. Áætlað er að 49 farþegavélar lendi á Keflavíkurflugvelli á aðfangadag. 

 

Þótt umræðan um ferðaþjónustuna hafi verið fremur neikvæð að undanförnu, er ekki hægt að sjá annað en að hún sé í góðum málum þessi jólin, því 30 þúsund manns verða á landinu yfir jól og áramót samkvæmt tölum Samtaka ferðaþjónustunnar.

Samanlagt koma um 150 þúsund erlendir gestir til landsins í desember. Ferðamennska um jól og áramót skapar miklar tekjur, segir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Já, ferðamenn skilja eftir sig gríðarlegar gjaldeyristekjur og í desember má áætla að þeir skilji eftir 30 milljarða eða rúmlega það í gjaldeyristekjum sem er afskaplega góð desemberuppbót fyrir samfélagið,“ segir Jóhannes. 

Bókunarstaða á hótelum sé góð, einkum á suðvesturhorninu. 

Árið 2014 lentu 13 farþegaþotur á Keflavíkurflugvelli á aðfangadag og 16 á gamlársdag. Árið 2015 lentu 25 vélar á aðfangadag og 28 á gamlársdag. 2016 lentu 40 vélar á aðfangadag og 49 á gamlársdag. Í fyrra lentu 46 vélar á aðfangadag og 59 á gamlársdag. Isavia gerir ráð fyrir að metið verði slegið á aðfangadag, þegar 49 vélar lendi og að 56 vélar lendi á gamlársdag. 

Monty Knowles, frá Bahama-eyjum, var ánægð með dvölina og sagði að Ísland hefði staðið undir væntingum. „Ég er hrifin af ljósunum og jólakettinum.“

Luisa Olviedo frá Kólumbíu, sagðist hafa séð mynd af Bláa lóninu og sagt að þangað vildi hún fara og reyna að sjá norðurljósin líka. 

„Ferðamenn sem koma hingað í desember eru að leita eftir náttúrufegurð vetrarins, norðurljósum og hátíðarhaldi. Þetta er töluverð upplifun og það er gríðarlega mikil þjónusta í gangi. Aðfangadagar og gamlársdagur og þessir dagar sem við teljum hátíðisdaga eru orðnir eins og hver annar mánudagur í ferðaþjónustunni, það er nóg að gera,“ segir Jóhannes. 

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV
asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV