Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Mesta Skaftárhlaup síðan mælingar hófust

02.10.2015 - 12:12
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Rennsli Skaftár við Eldvatn er nú rúmlega 2.000 rúmmetrar á sekúndu og nær líklega hámarki fljótlega eftir hádegi. Svava Björk Þorláksdóttir, í vatnavárhópi Veðurstofu Íslands, segir að flóðið sé það mesta síðan mælingar hófust.

Svava segir að framhaldið sé óráðið en rennsli í Eldvatni við Ása nái hámarki í hádeginu. Gríðarmikið vatn flæði yfir hraunið, vatnsstaðan í hrauninu sé há og því hætt við að vatn flæði yfir vegi. „Staðan núna er þannig að það lítur út fyrir að Eldvatn sé að ná hámarki. Rennslið er um 2.200 rúmmetrar á sekúndu,“ segir Svava.

Svava segir að það styttist í að hámarkinu sé náð við Ása. „Hámarksrennsli sem við sáum við Sveinstind er líklega tvöfalt hærra en við höfum séð í hlaupi. Það mun kannski ekki vaxa mikið enn, hámarkið er við það að nást við Ása. En það heldur áfram að flæða út á hraunið og þar mun það flæða um næstu daga. Hún segir að það megi alveg búast við því að flæði yfir þjóðveginn í hrauninu.“ 

Gísli Halldór Magnússon, bóndi á Ytri-Ásum, segir að það hafi þegar orðið tjón á landi. „Þetta er mjög tilkomumikil sjón að sjá, miklu meira en ég hef séð og þetta hlýtur að vera langstærsta hlaup sem komið hefur,“ segir Gísli.