Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Mesta sig síðan mælingar hófust

06.09.2014 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Bárðarbunga hefur sigið um 15 metra í umbrotunum undanfarið. „Við getum sagt að þetta dragi ekki úr líkunum á því að það geti orðið eldsumbrot, og jafnvel veruleg, í sjálfri öskju eða í Bárðarbungu sjálfri,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

Vísindamenn foru í eftirlitsflug með flugvél Isavia í gær. Hún er búinn búnaði til rannsókna og var farið yfir gögnin í gærkvöldi og í nótt. „Þá kom fremur óvænt niðurstaða að Bárðarbunguaskjan hefur sigið um allt að fimmtán metra, þannig að jökullinn hefur lækkað sem því nemur,“ segir Magnús Tumi. Hann segir skýringuna líklegast þá að jarðskjálftarnir miklu í Bárðarbungu tengist því að öskjubotninn hafi sigið. Þarna hafi farið út rúmmál sem nemi fjórðungi úr rúmkílómetra. „Þetta er sig sem við höfum ekki séð í eldsumbrotum síðan mælingar hófust á jarðskorpuhreyfingum á Íslandi og það var um miðja síðustu öld. Og sennilega þarf að leita lengra aftur áður en við sjáum viðlíka hreyfingar.“

„Það er líklegast að öskjubrotið í Bárðarbungu sé virkt og botninn sé að síga, sennilega eins og hann fljóti ofan á kvikunni og hjálpi til við að ýta henni niður og út. Við sjáum engin merki um eldgos eða aukinn jarðhita í sjálfri öskjunni,“ segir Magnús Tumi. Rúmmálið sem farið hafi undan öskjunni sé verulegur hluti af áætluðu heildarrúmmáli kvikugangsins. „Við getum sagt að þetta dragi ekki úr líkunum á því að það geti orðið eldsumbrot, og jafnvel veruleg, í sjálfri öskju eða í Bárðarbungu sjálfri.“

Svona mikið sig hefur ekki orðið síðan 1875 þegar Öskjuvötn urðu til, það var þó mun meira, um 300 metrar. „Þetta er meira sig en við höfum mælt í öðru. Það var tveggja metra sig í fyrstu umbrotunum í Kröflu.“

Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, segir að þetta ýti undir varúðarráðstafanir sem hafi verið gripið til. „Vinnan okkar næstu klukkutíma mun fara í að fara betur yfir það sem við erum búin að undirbúa varðandi það og skerpa á í því samhengi,“ segir Víðar og vísar til orða Magnúsar Tuma um að möguleika á eldgosi í Bárðarbungu.