Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Mesta hækkun fasteignaverðs síðan 2006

18.04.2017 - 19:58
Mynd: RUV / RUV
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um nærri þrjú prósent í mars. Á síðustu tólf mánuðum hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu að jafnaði hækkað um 21 prósent, sem er mesta tólf mánaða hækkun síðan á árunum fyrir hrun.

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur aðeins stefnt í eina átt síðustu ár, nánast lóðbeint upp á við. Og það virðist ekkert lát vera á, vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu fyrir marsmánuð var birt í dag en hún hækkaði um 2,7 prósent frá fyrri mánuði. Síðastliðið ár hefur hún hækkað um 20,9 prósent. Íbúð sem fór á 35 milljónir í mars í fyrra fór því á rúmar 42 milljónir í ár. Þetta er mesta hækkun á tólf mánaða tímabili síðan árið 2006.

Finnbogi Hilmarsson fasteignasali var með opið hús á Öldugranda síðdegis í dag og segir mikinn áhuga á eignum en það sé farið að hægja á vextinum. „Ég held við séum að sjá það að markaðurinn sé kannski að fara að nálgast það að ná einhverjum svona hæsta punkti ef við getum kallað það svo,“ segir Finnbogi. 

Nokkuð hefur borið á því undanfarið að eignir seljist á hærra verði en sett er á þær og það sé hart barist um bestu bitana. „Það er töluvert um það. Það er svo sem ekkert óeðlilegt við að sjá eina af hverjum þremur, fjórum íbúðum fara á yfirverði þar sem að það eru sérstaklega góðar eignir í vinsælum hverfum og í góðu ástandi þá eru oft margir um eignina og þá sjáum við það vissulega og oft er veruleg keppni milli aðila um það.“

En hvað getur þessi þróun haldið lengi áfram? „Það er erfitt að svara því. Maður hefur tilhneigingu til að segja nei, það getur ekki hækkað endalaust og við séum kannski að fara að sjá eitthvað jafnvægi á markaðnum en hins vegar er framboðið ekki það mikið og það hefur ekki aukist mikið síðustu vikur og það er ekki fyrr en við sjáum meira koma á markaðinn sem að það fer að hægja verulega á þessu.“