Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mest umburðarlyndi á Íslandi

21.06.2017 - 03:34
Full length of senior couple jumping against sky and having fun
 Mynd: www.Be-Younger.com - flickr.com
Mest umburðarlyndi er að finna á Íslandi. Danir búa hinsvegar við mestu lífsgæði heims. Þetta segir nýr alþjóðlegur listi yfir velferð og gæði samfélagsinnviða. Danir eru efstir á listanum en Íslendingar deila þriðja sæti listans með Norðmönnum. Stofnunin Social Progress Imperative, SPI, tekur árlega saman lista yfir velferð á heimsvísu, og er hundrað tuttugu og átta löndum gefin velferðarvísitala.

Norðurlöndin koma sem oft áður vel út úr samanburðinum, en Finnland er í öðru sæti listans, Ísland og Noregur í þriðja og Svíþjóð í áttunda.

Stökkvum upp um sjö sæti

Í fyrra var Ísland í tíunda sæti listans yfir velferð á heimsvísu, og stekkur því upp um sjö sæti milli ára. Samkvæmt listanum er mest umburðarlyndi að finna á Íslandi og minnst ofbeldi gegn minnihlutahópum. Veikleikar Íslands séu hinsvegar fólgnir í umhverfisatriðum, sem megi að hluta til rekja til ágangs ferðamanna. Danmörk trónir efst ekki síst vegna borgaralegra réttinda sem Danir njóta, til dæmis málfrelsi, og vegna góðs aðgengis að upplýsingum, en Danir hafa flestir aðgang að farsíma og interneti.

Á heimsvísu er niðurstaðan sú að við gætum gert betur, samkvæmt tilkynngu frá Social Progress Imperative. Velferð er víðast hvar ekki í samræmi við það sem efnahagurinn gefur til kynna að sé mögulegt, og eru aðgengi að vatni og grunnmenntun þeir þættir sem helst vantar upp á. Michael Green, framkvæmdastjóri SPI, kennir ójöfnuði um þetta. Of mikill munur sé á ríkari löndum og fátækari, og hjálparstarf sé ekki nógu öflugt til að grunnþörfum sé sinnt í fátækari ríkjum. Vandamálin séu hinsvegar leysanleg.

 

 

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV