Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mest seldi kubburinn – og reyndar sá eini

Mynd: RÚV / RÚV

Mest seldi kubburinn – og reyndar sá eini

19.01.2018 - 11:12

Höfundar

„Við söknum þess tíma að fara út í búð, kaupa sér albúm, setja plötuna á fóninn og lesa allt um þetta í albúminu. Við erum að fara nýja leið að þessari upplifun og setja hana í annað samhengi,“ segir Jakob Frímann Magnússon um nýjustu plötu Stuðmanna, Astraltertukubb.

Stuðmenn sendu frá sér nýja plötu í árinu sem leið. Þótt platan sjálf hafi ekki komið út á efnislegu formi er umslagið utan um hana hugsanlega það margbrotnasta í íslenskri útgáfusögu, svonefndur Astraltertukubbur sem hægt er að taka í sundur og breytist þá í glansandi stofustáss.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Frá gamni að veruleika

„Astraltertukubburinn var upphaflega gamansöm hugmynd Samúels Jóns Samúelssonar trombónuleikara,“ segir Jakob Frímann en orðaleikurinn vísar auðvitað í frægt atriði úr myndinni með Allt á hreinu. „Þá var hugmyndin USB-kubbur en þegar leið að útgáfu á nýju Stuðmanna-efni þá voru USB-kubbar ekki lengur tölvutækir og þá þurfti að leita nýrra leiða. Þá sneri ég mér til Hönnunarmiðstöðvar Íslands, sem benti mér á Þórunni Árnadóttur og þá tók hugmyndin um Astraltertukubb nýja stefnu.“

Nýaldarstemning full af góðgæti

Þórunn segir að hönnunin hafi miðað að því að fanga blöndu af dulúð, vísindaskáldskap og nýaldarstemningu.„Mig langaði að vinna með upplifunina þegar þú opnar hann, hvernig þú kemst að tónlistinni. Hann breytist úr þessum kubbi í píramída.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jakob Frímann og Þórunn Árnadóttir.

Inni í kubbnum er plötulíkan úr pappa með vefslóð og kóða þar sem hægt er að sækja plötuna. 

„Svo ef þú vilt vita hver gerir hvað og hvernig þá opnarðu hvern píramída fyrir sig,“ bætir Jakob Frímann við.  „Það eru leiðbeiningar í einum, svo eru myndir og eitthvað sem þú getur stungið upp í þig og japlað á meðan þú sperrir eyrnahlemmana eftir tónlistinni.“

Jakob Frímann segir að viðtökurnar hafi verið góðar. „Þetta er án nokkurs vafa mest seldi kubburinn á síðasta ári og þessu ári. En líka sá eini sem er á markaði.“

Rætt var við Jakob Frímann og Þórunni í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan. 

 

Tengdar fréttir

Popptónlist

Tíu bestu íslensku plöturnar árið 2017

Tónlist

Sönnunargagnið er astraltertukubbur

Popptónlist

Tíu flottustu íslensku plötuumslögin

Popptónlist

Tíu bestu fyrstu plötur íslenskra poppara