Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Messubók afhent

Mynd með færslu
 Mynd:

Messubók afhent

07.05.2013 - 19:06
Rómverskri messubók sem er nýkomin út á íslensku var fagnað í Landakotskirkju í dag. Byrjað var að prenta bókina fyrir þremur vikum og búið er að afhenda níu bækur af 53. Bókinni er ætlað að endast í árhundruð.

Bókina má kalla flaggskip íslensks handverks í bókbandi segja forsvarsmenn Odda.

„Þetta er allt handunnið, allt bókband er handunnið, alveg frá því að við brjótum arkirnar niður og þar til við skilum þessu af okkur", segir Stefán Hjaltalín, sölustjóri hjá Odda.

Flipar og lesbönd kröfðust mikillar nákvæmnisvinnu en messubókin er gerð að fyrirmynd messubókar á latínu. Glíman við latínuna tók þýðandann þrjú til fjögur ár og fór vinnan að mestu fram á kvöldin.    

„Textinn er óskaplega merkilegur og fallegur á köflum og gríðarlega gaman að glíma við svona texta sem er fullur af hefð og trú", segir Svavar Hrafn Svavarsson, prófessor í heimspeki við Háskóla íslands.

En það þarf að huga að ýmsu þegar svona trúartexti er þýddur. 

„Það þarf að passa að í þýðingunni sé engin heresía, ekkert hliðarspor af minni hálfu, engin villutrú og samstarfsmaður minn séra Jürgen Jamin, sem er nú ekki hér lengur, hann fór yfir jafnharðan, og síðan komu fleiri", segir Svavar.

Eitt eintak messubókarinnar fer til páfans í Róm, sú er bundinn inn í hvítt.

„Ég veit nú ekki hversu oft hún verður dregin fram í Vatíkaninu, við hvaða hátíðlegu tilefni það ætti að vera, satt best að segja, en gaman að hún skuli rata þangað", segir Svavar.