Messað á ný um helgina

30.04.2019 - 10:20
epa07522343 Members of the clergy attend the mass funeral for the victims of a series of bomb blasts at the Katuwapitiya Church in Colombo, Sri Lanka 23 April 2019. According to police reports, at least 290 people were killed and more than 500 injured in a coordinated series of blasts during the Easter Sunday service at churches and hotels in Sri Lanka on 21 April 2019.  EPA-EFE/M.A. PUSHPA KUMARA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kaþólska kirkjan Sri Lanka tilkynnti í morgun að messað yrði í kirkjum safnaðarins um helgina, hálfum mánuði eftir hryðjuverkin þegar yfir 250 létu lífið í sprengjutilræðum í kirkjum og hótelum í landinu.

Malcolm Ranjith kardínáli sagði að kirkjan fylgdist náið með rannsókn málsins og vildi sjá til þess að öryggi yrði nægilega tryggt til að hægt yrði að hefja daglega guðsþjónustu á ný. Byrjað yrði rólega á sunnudag 5. maí.

Vopnaðir verðir hafa fylgt kardínálanum eftir hryðjuverkin og brynvagnar hafa verið staðsettir fyrir utan embættisbústað hans í höfuðborginni Colombo.

Kardínálinn sagðist hins vegar hafa skilað brynvarinni bifreið sem hann hefði fengið frá yfirvöldum eftir atburðina og ferðast um í venjulegum bíl. Hann kvaðst ekki óttast um líf sitt, en vildi að öryggi annarra yrði tryggt.
 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi