Merkjamanían veldur kvíða

Mynd: EPA-EFE / EPA

Merkjamanían veldur kvíða

08.04.2019 - 11:27
Adidas jakkar, Carhartt buxur og Kawasaki skór eru trend sem margir gætu kannast við frá sínum yngri árum og gætu jafnvel hafa grátbeðið mömmu sína um. Nú eru trendin hins vegar önnur og dýr merkjavara farin að verða sífellt vinsælli.

Margir kannast sennilega við pressuna á uppvaxtarárunum sem tengdist því að þurfa að eiga einhverja ákveðna tegund af flík. Þessa pressu finnur ungt fólk að sjálfsögðu líka í dag en hún virðist vera að færast enn frekar í aukana. 

Karen Björg Þorsteinsdóttir, tískusérfræðingur, segir að ungt fólk sé bókstaflega farið að finna fyrir kvíða yfir því að þurfa að eiga merkjavöru. Og engar smá merkjavörur heldur þurfa þær helst að vera Gucci, Louis Vuitton eða vörur frá álíka merkjum sem kosta svo sannarlega sitt. 

Karen segir það í rauninni vera tvo póla á því að kaupa dýra merkjavöru. Þú getur verið aðdáandi merkis og keypt vörur frá því fyrir þig en þú getur líka verið að kaupa þær til þess að reyna að þóknast öðrum og það er hugarfar sem kannski þyrfti að breyta.

„Merkjavörur þær segja ekki neitt um okkar. Það er rétta hugarfarið, ég er ekki betri manneskja þegar ég er með þessa tösku.“ 

„Á endanum snýst þetta kannski bara um það hvort þú sért sjálfsöruggur, ekki um það í hverju þú ert,“ segir Karen og vísar í myndbandið hér fyrir ofan þar sem tveir vinir í Bretlandi klæddu félaga sinn í ódýr og skrítin föt, vöfðu plasti um hálsinn á honum, settu límband á kálfana á honum og sendu hann svo út að labba í London.

Það leið ekki á löngu þangað til ljósmyndarar voru mættir á svæðið að reyna ná myndum af þessum ótrúlega manni sem var augljóslega mikið tísku „icon“.

Hlustaðu á tískuhornið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.