Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Merkilegt hve margir eru óákveðnir

28.07.2015 - 20:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðni Th. Jóhannesson dósent í sagnfræði þekkir sögu forsetaembættisins vel. Hann segir einna merkilegast í þessum þjóðarpúlsi hve margir eru óákveðnir enda langt til forsetakjörs

 

„Og enginn búinn að lýsa því yfir afdráttarlaust að hún eða hann vilji gegna embætti forseta Íslands og núverandi ekki búinn að segja það afdráttarlaust að hann hyggist hverfa frá Bessastöðum þannig að allt er þetta ennþá í mjög lausu lofti,“ segir Guðni.

Ólafur Ragnar er með 11 prósent af þeim sem taka afstöðu, hvað finnst þér um þá tölu? 
„Jú, þeir eru auðvitað þó nokkrir þá sem vilja sjá hann áfram en ég er viss um að þeir eru líka þó nokkrir sem vildu það en þykjast vita að hann ætli ekki að gefa kost á sér. Þessi tala er talsvert lægri en í janúar 2012.“

Jón Gnarr, Katrín Jakobsdóttir, Þóra Arnórsdóttir og Ragna Árnadóttir eru þarna líka ofarlega?
„Þau hafa öll hafi ég lesið blöð og hlustað á fjölmiðla rétt gefið það út með einum eða öðrum hætti að þau hafi ekki áhuga á að gegna þessu embætti.“

62% hafa ekki myndað sér skoðun á því. Er eitthvað hægt að lesa í þá tölu hvort fólk hafi bara yfirleitt ekki áhuga á þessu embætti?

„Ég held ekki ég held að það sé frekar það að það er ekki tímabært að velta vöngum yfir þessu. Það hefði nú þótt goðgá hér áður fyrr að velta vöngum yfir því hver settist á Bessastaði áður en sitjandi forseti gæfi það út að hann eða hún hygðist láta gott heita,“ segir Guðni og bætir við: „Þessi 62 prósent eru kannski að bíða eftir því að einhver segi: Já hér er ég, nú vil ég bjóða mig fram.“

Hann á von á því að upp úr áramótum eigi málin eftir að skýrast, Ólafur Ragnar eigi eftir að gefa upp hvort hann langar að vera eða fara, sagan segi að það megi frekar búast við framboðum seinna en fyrr og að kosningabaráttan verði snörp.