Merkel segir brýnt að verja evruna

13.05.2010 - 17:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Angela Merkel, Þýskalandskanslari, segir endalok evrunnar þýða endalok Evrópusambandsins. Því verði að verja evruna og aðildarríki sambandsins verði að koma sér saman um sameiginlega efnahagsstefnu.

Merkel sætir harðri gagnrýni, sumir myndu jafnvel segja árásum, frá pólitískum andstæðingum og samherjum innan kristilega demókrataflokksins. Henni er kennt um að efnahagsvandi Grikklands sé nú orðinn kostnaðarsamur vandi allra evru-ríkjanna og að hafa valdið kosningatapi í Nordrhein-Westphalen.

Í dag virtist Merkel snúa þögulli vörn í háværa sókn. Í ræðu fjallaði hún um erfiðasta tímabil í sögu Evrópusambandsins og hættuna af því að bregðast ekki harkalega við vanda Grikklands. Það þýddi endalok evrunnar og ekki nóg með það, heldur um leið endalok Evrópusambandsins og hugsjónarinnar um sameinaða Evrópu.

Hingað til hefur Merkel verið afar treg til að koma öðrum sambandsríkjum til bjargar og talað um að Þjóðverjar borgi fyrir sig. En miðað við orð hennar í dag, telur hún annað hvort að evrópskt samstarf sé eina leiðin fram á við, hvað sem það kostar, eða þá að hún telur það einu leiðina, sjálfri sér til bjargar.

Og Merkel sagði næstu skref augljós. Ríkin í myndsamstarfinu væru með sameiginlega mynt, en ekki með sameiginlega efnahagsstefnu eða pólitíska stefnu. Því yrði að breyta. Og í kjölfarið mætti svo skoða aðrar hugmyndir um nánara samstarf, til dæmis hugmyndir um samevrópskan her.  Tækist evru-ríkjunum og Evrópusambandinu að vinna sig út úr kreppunni, stæðu þau sterkari að því loknu.