Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Merkar fornminjar fundust á Sogni í Noregi

Mynd með færslu
 Mynd:

Merkar fornminjar fundust á Sogni í Noregi

13.06.2013 - 18:54
Norskir fornleifafræðingar telja að minjar sem fundust í víkingaaldarkumli í Sogni bendi sterklega til að kristni hafi náð fótfestu í landinu mun fyrr en áður var talið. Minjarnar eru líklega frá svipuðum tíma og þegar landnám Íslands hófst.

Meðal annars hefur fundist krossmerktur kljásteinn, sem notaður var til að strengja vefnað. Fundur steinsins gæti gerbylt hugmyndum um hvenær kristni barst til Noregs. Kumlið sem hann fannst í er í Vík á Sogni og það er talið vera frá síðari hluta níundu aldar. Almennt er talið að kristnun Noregs hafi ekki hafist fyrr en á dögum Ólafs Tryggvasonar og Ólafs helga Haraldssonar en kljásteinninn virðist benda til að kristin áhrif hafi borist miklu fyrr til landsins.

Fræðimenn telja fund hans því marka tímamót. Þeirra á meðal er Liv Helga Dommasnes prófessor. „Það er mjög spennandi að fundist hafi kristilegt tákn í kumli frá víkingatímanum. Það segir okkur að fólk hafi ástundað tvenn trúarbrögð á þessum tíma í sátt og samlyndi,“ segir hún.

Kumlið í Vík er talið frá svipuðum tíma og landnám Íslands hófst. Því má leiða að því getum að landnámsmenn, sem margir hverjir komu frá Sogni, hafi kynnst kristnum hugmyndum á heimaslóðum sínum áður en þeir lögðu af stað yfir hafið.