Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Mér fannst þetta algjör svívirða“

15.09.2016 - 21:42
Mynd: Landslög / Landslög
Mynd með færslu
 Mynd: Landslög
Hæstaréttarlögmaður sem kom að samningum við erlenda kröfuhafa föllnu bankana segir að ávirðingar í skýrslu fjárlaganefndar Alþingis séu svívirðilegar. Embættismenn og sérfræðingar séu nánast sakaðir um landráð, án þess að fá tækifæri til að svara ásökunum. Varaformaður nefndarinnar baðst í kvöld afsökunar á orðalagi í skýrslunni.

Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson kynntu á mánudag skýrslu um einkavæðingu bankanna í kjölfar hrunsins. Jóhannes Karl Sveinsson kom að allri samningagerðinni, ásamt fjölda embættismanna. Hann segir að embættismenn í stjórnkerfinu geti ekki borið hönd fyrir höfuð sér þótt þeir séu bornir svo þungum sökum. Það sé mjög þungt hljóð í hópnum vegna skýrslunnar.

„Mér fannst málið liggja þannig að þarna kemur samantekt í upphafi skýrslunnar þar sem er sagt að gögn málsins sýni að þeir sem hafi verið að vinna að þessu hafi sýnt af sér undarlegan ótta og vanmáttarkennd og þeir hafi haft undarlega áráttu til að gæta hagsmuna kröfuhafa, eins og sagt er í skýrslunni. Þarna er vikið orðum að samningamönnum og samningafólki, þarna er undir fjöldi fólks, ráðuneytisfólks, embættismanna og annarra sérfræðinga þarna komu að. Mér fannst þetta algjör svívirða og sér í lagi vegna þess að það var ekki talað við einn einasta mann sem að þessu hafði komið og hefði getað útskýrt málið fyrir þeim sem sömdu þessa skýrslu,“ segir Jóhannes Karl.

Hvaða ávirðingar í skýrslunni finnst þér alvarlegastar?

„Þetta sem ég nefndi hér áðan, það felur ekkert annað í sér en það að þeim sem var treyst til að gæta hagsmuna Íslendinga fyrir brjósti á þessum viðsjárverðu tímum var misfarið með það traust svo það varði nánast við landráð.“

Jóhannes segist vita það fyrir víst að skýrslan leggist mjög þungt á það fólk sem á erfitt með að tjá sig, svo sem þá sem starfa hjá ráðuneytum. „Fólk sem getur ekki neina hönd fyrir höfuð sér borið og hafa engan möguleika á að koma fram með þeim hætti sem gert hefur verið og jafna metin.“

Hefur þú íhugað að bregðast við þessu?

„Það kemur bara í ljós en ég tók eftir því áðan að varaformaður fjárlaganefndar sá ástæðu til þess að biðjast afsökunar á því hvað komið hafði fram í skýrslunni og það voru jafnframt vilyrði fyrir því að skýrslunni yrði breytt, það yrði dregið úr þessum gildisdómum sem er að finna í henni. Maður verður að sjá hvað kemur út úr því. Hvort að fólk sér að sér eða ekki,“ segir Jóhannes Karl. Viðtalið í heild sinni má nálgast í spilaranum hér að ofan.

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður nefndarinnar, birti í kvöld færslu á Facebook þar sem hann segir að aldrei hafi verið ætlun meirihluta fjárlaganefndar að vega að starfsheiðri embættismanna og sérfræðinga sem eigi ekki annað skilið en þakkir fyrir sín störf. Það sé rétt og skylt að biðjast velvirðingar á slíkum mistökum, og orðalag skýrslunnar verði endurskoðað.