Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Menntamálin efst á blaði

11.03.2018 - 19:32
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Menntamálin voru efst á blaði á flokksþingi Framsóknarmanna sem lauk síðdegis. Átökin frá síðasta flokksþingi eru að baki, segir varaformaðurinn, og formaðurinn segir að það sé eins og þau hafi aldrei átt sér stað, nú sé horft til framtíðar. 

Flokksþing Framsóknar hefur staðið yfir síðan á föstudag og í dag voru afgreiddar tillögur og ályktanir. Á oddinn eru sett menntamál, velferðarmál, uppbygging innviða og landbúnaður. Framsóknarmenn vilja gera ungu fólki auðveldara að eignast húsnæði. Hægt verði að sækja um afborgunarhlé á námslánum í allt að fimm ár, til að hjálpa ungum fjölskyldum sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. En menntamálin bar hæst. „Við ákváðum á hundrað ára afmælinu að líta alveg aftur þar sem stofnendur flokksins voru bændur og kennarar allir, og lögðum mikla áherslu á menntun, við erum að fara inn í mesta og hraðasta breytinguna, hvað varðar fjórðu iðnbyltinguna og þar er menntun lykilatriði,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Og í þeirri vinnu skipti miklu máli að laða kennara til starfa.

„Það er alveg einstakt hvernig við erum búin að vera að vinna þetta, grasrótin er búin að vinna þetta, það er búinn að vera mjög öflugur hópur alls staðar að af landinu, sem er búinn að vinna hér magnaðar tillögur, sem fara inn í alla vinnuna hjá okkur til dæmis, það er mjög gott,“ segir Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.

„Svo er það innviðauppbygging, það eru að koma hér tillögur um það hvernig við eflum samgöngur í landinu, það er alveg ljóst að við þurfum að bæta þar verulega í, þannig að ég held að Framsóknarmenn séu mjög ánægðir með flokksþingið,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins.

Mörgum eru eflaust í fersku minni átökin á síðasta flokksþingi, þegar Sigurður Ingi felldi Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem formann, sem varð til þess að ári eftir sagði Sigmundur Davíð sig úr Framsóknarflokknum. „Ég myndi segja að þau væru að baki, forystan er að fá mjög góða kosningu,“ segir Lilja.

Sigurður Ingi lýsir sömu skoðun. „Við göngum mjög sterk út frá þessu flokksþingi. Eru átökin sem einkenndu síðasta flokksþing að baki? Þau eru bara eins og þau hafi aldrei átt sér stað, það er það sem er ánægjulegt, menn horfa bara hér til framtíðar.“

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV