Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Menntakerfið þurfi að bregðast við breytingum

02.03.2019 - 20:03
Mynd:  / 
Menntakerfið þarfnast mikillar endurskoðunar svo hægt verði að takast á við tæknibreytingar sem eru í vændum, samkvæmt skýrslu nefndar forsætisráðherra. Menntamálaráðherra kynnir tillögur um aðgerðir í menntamálum í næstu viku.

Í skýrslunni sem starfshópur forsætisráðherra vann að kom meðal annars fram að um þriðjungur starfa á Íslandi gæti horfið á allra næstu árum vegna tæknibreytinga. Búa þurfi samfélagið undir breytingar og menntakerfið sé undirstaða þess, þar þurfi að líta til ýmissa þátta. Til að mynda hvernig kennslu er háttað, uppbyggingu þverfaglegs náms og þá þurfi að auka vægi verknáms og listgreina. „Þetta er allt gerlegt. Og við höfum líka verið núna, til að mynda, að forgangsraða fjármunum í þágu verk-, iðn-, starfs- og tæknigreina vegna að við teljum að það sé mikilvægt,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra. 

Leggur áherslu á læsi

Lilja segir að efla þurfi allt menntakerfið. Hún leggur áherslu á að efla þurfi læsi. Þannig verði börn betur búin undir að takast á við erfið verkefni. „Í öðru lagi þarf að efla allt starfsumhverfi í kringum kennara. Vegna þess að kennarinn, hann sér um menntakerfið og kennarinn leggur líka grunninn að öllum öðrum störfum. Og þess vegna er þetta mjög mikilvægt. Og við erum að fara að kynna núna aðgerðir í vikunni, aðgerðir í menntamálum og þar verður megináherslan á það að efla nýliðun í kennarastéttinni.“

Í samanburði við önnur Evrópuríki kemur Ísland ekki vel út sé litið til menntunar í svokölluðum STEM-greinum, það er vísindum, tæknigreinum, verkfræði og stærðfræði. Ísland er til að mynda eftirbátur annarra Norðurlanda en hlutfall háskólamenntaðra hér á landi í þessum greinum er 16%. Finnar eru þeirra efstir með 30% og önnur Norðurlönd eru öll yfir tuttugu prósentum. Í skýrslunni segir að það sé mikilvægt fjölga menntuðu fólki á sviði raungreina. „Við erum að setja á laggirnar fagráð um stærðfræðikennslu einmitt til þess að koma til móts við þetta vegna þess að við vitum það að rannsóknir og þróun og tækni, hún er drifin áfram af þeim sem eru menntaðir í þessum greinum,“ segir menntamálaráðherra.