Það hafa verið mótmæli að undanförnu, fólk kemur saman, meðal annars til að sýna stuðning við hælisleitendur, og svo eru kjaramálin auðvitað ofarlega á baugi þessar vikurnar, það er tekist á um kaup og kjör. Og menn mótmæla, hvar annars staðar en á Austurvelli. Þar er stytta af sjálfstæðishetjunni Jóni Sigurðssyni, standmynd steypt í eir, eins og Steinn Steinarr orti forðum, og það er eins og Jón komi við sögu í mótmælunum, menn hengja á styttuna pappaspjöld, skvetta á hana málningu, klæða Jón í bleikan kjól, og guð má vita hvað.
Sumir vilja meina að mótmælendur vanvirði Jón og minningu hans með því að láta þetta minnismerki ekki í friði. Menn hafa auðvitað mótmælt á Austurvelli áður, það er hefð fyrir því, og alltaf skal Jón gamli Sigurðsson standa vaktina, já standmynd steypt í eir, grunlaus og kannski grandalaus, óvirkur, enda liðin ríflega 200 ár frá fæðingu hans, kannski er hann bara þarna, og ekkert meir um það að segja. Það er sama hverju við mótmælum, alltaf skal Jón standa þarna á vellinum miðjum, grafkyrr, og þögull.