Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Menn vilja hafa Jón með sér í liði

Mynd:  / 

Menn vilja hafa Jón með sér í liði

27.03.2019 - 12:18

Höfundar

Það er hefð fyrir því að mótmæla á Austurvelli, og alltaf skal Jón Sigurðsson vera á staðnum. Stundum er engu líkara en að þessi táknmynd verði með einhverjum hætti þátttakandi í því sem fram fer á vellinum. Guðmundur Hálfdánarson sagnfræðingur segir að Jón sé eftirsóknarverður liðsmaður; tromp sem menn spili út þegar skáka skal andstæðingum í deilum.

Það hafa verið mótmæli að undanförnu, fólk kemur saman, meðal annars til að sýna stuðning við hælisleitendur, og svo eru kjaramálin auðvitað ofarlega á baugi þessar vikurnar, það er tekist á um kaup og kjör. Og menn mótmæla, hvar annars staðar en á Austurvelli. Þar er stytta af sjálfstæðishetjunni Jóni Sigurðssyni, standmynd steypt í eir, eins og Steinn Steinarr orti forðum, og það er eins og Jón komi við sögu í mótmælunum, menn hengja á styttuna pappaspjöld, skvetta á hana málningu, klæða Jón í bleikan kjól, og guð má vita hvað.

Sumir vilja meina að mótmælendur vanvirði Jón og minningu hans með því að láta þetta minnismerki ekki í friði. Menn hafa auðvitað mótmælt á Austurvelli áður, það er hefð fyrir því, og alltaf skal Jón gamli Sigurðsson standa vaktina, já standmynd steypt í eir, grunlaus og kannski grandalaus, óvirkur, enda liðin ríflega 200 ár frá fæðingu hans, kannski er hann bara þarna, og ekkert meir um það að segja. Það er sama hverju við mótmælum, alltaf skal Jón standa þarna á vellinum miðjum, grafkyrr, og þögull.  

Mynd með færslu
 Mynd:

Guðmundur Hálfdánarson prófessor í sagnfræði gegnir stöðu sem bókstaflega er kennd við Jón Sigurðsson. Hann velkist ekki í vafa um að það sé jákvætt að Jón sé virkjaður, annars sé hann bara dauð stytta á stalli. „Ég held að hluta til vilji menn hafa Jón Sigurðsson með sér í liði,“ segir Guðmundur, „en svo vill það þannig til að styttan er á Austurvelli og Alþingishúsið er þarna líka, þannig að hann flækist inn í mótmæli sem mundu hafa orðið hvort eð er.“

Guðmundur segir að það hafi þó fennt allmikið yfir það sem Jón stóð í raun og veru fyrir. „Hann er auðvitað tákn fyrir þjóðríkið og lýðræðisbaráttu á Íslandi þannig að mér finnst það mjög vel við eigandi að menn nýti sér Jón í þeirri baráttu sem þeir telja vera lýðræðisbaráttu í dag. Þannig að það er hið besta mál.“ Hann sé hins vegar fulltrúi allt annars tíma en við búum við í dag. „Við getum til dæmis ekki sagt neitt fyrir um það hvernig hann hefði talað um innflytjendur á Íslandi. Hann er auðvitað uppi við allt aðrar aðstæður.“ 

Jón var trompið sem menn spiluðu út þegar þeir vildu skáka andstæðingnum í deilum segir Guðmundur. „Til dæmis við stofnun Háskóla Íslands þá vísuðu menn til þess að Jón hefði sett fram tillögur um þjóðskóla og þetta var notað í þessari baráttu, margir á þingi voru ekki sérstaklega æstir í stofna háskóla, fannst hann dýr og að peningum væri betur varið í eitthvað annað.“

Mynd með færslu
 Mynd:

Guðmundur er ekki á því að það sé vanvirðing við minningu Jóns að sulla yfir styttuna eða setja á hana pappaspjöld. „Ef við horfum á þetta táknræna rými, þessa velli sem hafa verið nýttir í tengingu við lýðveldissöguna, í tengingu við pólitíska sögu Íslendinga, þá koma tveir vellir í hug; annars vegar Austurvöllur og hins vegar Þingvellir. Þingvellir hafa tekið á sig þetta heilaga rými, þar koma Íslendingar saman, halda þjóðhátíð og allir eru sammála.“

En lýðræðissamfélög snúast um það að við erum ekki sammála, segir Guðmundur, og Austurvöllur hafi alla tíð verið rými mótmæla og átaka. „Ef við berum saman 1944, hátíð á Þingvöllum, allir sammála í rigningunni. Síðan er 1949 og þá eru þessi miklu mótmæli [á Austurvelli]. Þetta eru tvær birtingarmyndir íslenska þjóðríkisins sem lýðræðisríkis, annars vegar erum við sammála og hins vegar tökumst við á um pólitísk málefni. Þannig að mér finnst þetta mjög í anda þess.“

Að láta skoðanir sínar í ljós er hinn heilagi réttur borgarans, þó með ákveðinni virðingu fyrir valdinu segir Guðmundur. Ekki sé rétt að ráðast á valdið með ofbeldi og offorsi, en ekki hafi borið á slíku í nýlegum mótmælum. „Menn voru raunverulega að nýta sér sinn heilaga lýðræðislega rétt til þess að koma skoðunum sínum á framfæri við stjórnvöld.“ 

„Mér finnst svo mikilvægt að hann sé notaður,“ segir Guðmundur Hálfdánarson að lokum um Jón Sigurðsson, „því ef hann er ekki notaður þá er hann horfinn og deyr. Þetta er það sem heldur minningunni á lífi.“

Rætt var um virkni Jóns Sigurðssonar, við sagnfræðingana Guðmund Hálfdánarson og Pál Björnsson, í Lestinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Innlent

Vilja fá umboðsmann fyrir flóttafólk

Stjórnmál

Jón Sigurðsson táknmynd kynbundins ofbeldis?

Menningarefni

Kynþáttahyggja á þátt í sjálfsmynd