Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Menn í vinnu sagt undirbúa gjaldþrot

17.05.2019 - 17:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsvarsmenn verkalýðsfélagsins Eflingar segja starfsmannaleiguna Menn í vinnu undirbúa gjaldþrot. Fyrirtækið hafi nú skipt um nafn og skipt út öllum formlegum forsvarsmönnum. Í apríl fullyrtu fulltrúar Eflingar að forsvarsmenn starfsmannaleigunnar hafi stofnað nýja starfsmannaleigu undir nafninu Seigla.

Þá hvatti Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fyrirtæki til að stunda ekki viðskipti „við þetta nýjasta afsprengi vinnumarkaðarins.“ Í frétt Eflingar í dag segir að verið sé að skoða hvort ástæða sé til að kæra starfshætti fyrirtækisins til lögreglu á grundvelli gagna sem Réttur hefur aflað. 

Nýr eigandi og framkvæmdastjóri

Efling segir fyrirtækið Menn í vinnu heita MIV ehf. í dag. Þá sé einnig búið að skipta um eiganda og framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir að vinnubrögð sem þessi bendi til undirbúnings gjaldþrots, oft í tengslum við kennitöluflakk að því er fram kemur í frétt Eflingar.

Í frétt Vísis í lok apríl var greint frá því að sonur Höllu Rutar Bjarnadóttur, eins forsvarsmanna Manna í vinnu, væri skráður fyrir öllu hlutafé nýju starfsmannaleigunnar Seiglu. 

Í skriflegum samskiptum fréttastofu við Höllu Rut segir hún um Eflingu: „Þau reka fyrirtækið í þrot með lygum og röngum ásökunum. Við erum að fara stefna þeim líka og hugleiðum að kæra til lögreglu hvernig þau misnota almannafé í persónulega baráttu gegn okkur, sem höfum sannarlega ekkert til saka unnið.“