
Þá hvatti Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fyrirtæki til að stunda ekki viðskipti „við þetta nýjasta afsprengi vinnumarkaðarins.“ Í frétt Eflingar í dag segir að verið sé að skoða hvort ástæða sé til að kæra starfshætti fyrirtækisins til lögreglu á grundvelli gagna sem Réttur hefur aflað.
Nýr eigandi og framkvæmdastjóri
Efling segir fyrirtækið Menn í vinnu heita MIV ehf. í dag. Þá sé einnig búið að skipta um eiganda og framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir að vinnubrögð sem þessi bendi til undirbúnings gjaldþrots, oft í tengslum við kennitöluflakk að því er fram kemur í frétt Eflingar.
Í frétt Vísis í lok apríl var greint frá því að sonur Höllu Rutar Bjarnadóttur, eins forsvarsmanna Manna í vinnu, væri skráður fyrir öllu hlutafé nýju starfsmannaleigunnar Seiglu.
Í skriflegum samskiptum fréttastofu við Höllu Rut segir hún um Eflingu: „Þau reka fyrirtækið í þrot með lygum og röngum ásökunum. Við erum að fara stefna þeim líka og hugleiðum að kæra til lögreglu hvernig þau misnota almannafé í persónulega baráttu gegn okkur, sem höfum sannarlega ekkert til saka unnið.“